fbpx
Laugardagur 07.desember 2024
Fókus

Magnús Ver opnar sig um áfall: „Það var verið að reyna að hnoða hann og blása“

Fókus
Mánudaginn 25. nóvember 2024 10:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Magnús Ver Magnússon, fjórfaldur sterkasti maður heims, segist hafa orðið sterkur af því að vinna erfiðisvinnu í sveit sem krakki og unglingur.

Magnús, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir í þættinum að fráfall Jóns Páls Sigmarssonar hafa verið reiðarslag fyrir íslenskt samfélag og alla sem komu að kraftíþróttum. Hann segir aðfarirnar sem menn notuðust við hafa verið býsna frumstæðar miðað við það sem þekkist í dag.

Sjá einnig: Magnús Ver rifjar upp mestu eftirsjána á ferlinum:„Ég gerði afdrifarík mistök“

„Fyrsta próteinið sem ég keypti mér hét Vitalack og var í risastórum málmkassa og það var til kálfaeldis. Ég fékk þetta í heildsölunni Sól og þetta blandaðist ekki sérlega vel. En ég setti þetta saman við mjólk, banana og hindberjasafa og svo píndi maður þetta í sig. Þetta var talsvert frumstæðara allt saman hjá okkur á þessum tíma heldur en í dag og það þurfti stundum að hafa mikið fyrir því að ná að þyngjast vel. Við píndum í okkur mat og æfðum marga klukkutíma á dag. En þó að flestu hafi fleygt fram og menn búi við betri aðstæður í dag er staðreyndin samt sú að gömlu lögmálin um að borða mikið af alvöru mat og lyfta þungt eru enn aðalatriðin í því að verða sterkur,” segir Magnús, sem segist hafa fengið grunnstyrkinn af því að vinna í sveitinni sem barn.

„Ég var alinn upp í sveit hjá afa og ömmu alveg þar til ég þurfti að fara í skóla. Svo hélt ég áfram að fara í sveitina á sumrin þegar ég varð eldri. En maður sótti grunnstyrkinn úr því að vinna erfiðisvinnu í sveitinni. Það var ekkert gert á auðvelda mátann. Ég man að þegar við fengum bindivél fyrir heybagga og hjá okkur voru þyngstu og stærstu heybaggarnir í allri sveitinni. Alltaf þegar það var bundið fyrir aðra bæi var beðið um að minnka baggana. En ég var látinn sjá um stóru baggana 11-12 ára gamall. Þarna varð grunnurinn til. Eftir fyrsta sumarið þarna var ég kominn með vöðva og orðinn mjög sterkur miðað við aldur. Týpurnar sem maður kynntist á þessum tíma í sveitinni eru eiginlega útdauðar í dag. En ég trúi því að þegar Ísland var að byggjast hafi þeir sterkustu lifað af og þess vegna hafi orðið til mjög öflug gen hérna. Þó að síðar hafi komið hálfgerðar Kókó-puffs kynslóðir.”

„Hvað er ég eiginlega að gera hérna?“

Magnús er einn af aðeins fjórum mönnum í sögunni sem hafa unnið keppnina um sterkasta mann heims fjórum sinnum.

„Ég vann þetta í fyrstu tilraun. Þá kom ég inn sem varamaður fyrir Jón Pál, sem var meiddur. Það verður líklega aldrei endurtekið að varamaður komi inn á síðustu stundu og vinni mótið. Ég man að umræðan var um það hvað í ósköpunum væri eiginlega í gangi uppi á Íslandi. Þegar sá besti kæmist ekki, þá væri bara sendur annar inn sem kæmi bara og sigraði í staðinn. Ég hugsa að þeir sem kepptu við mig hafi vanmetið mig og það var eitthvað sem var oft raunin þegar kom að mér. Ég man þegar ég mætti í fyrstu keppnina mína á Tenerife að ég hugsaði: „Hvað er ég eiginlega að gera hérna?“ Þessir menn voru rosalegir á að líta, bæði stærri en ég og sumir tugum kílóa þyngri. Algjör tröll. En ég hristi þessa hugsun fljótt af mér og ákvað að ég skyldi sína þeim hvað ég gæti. Þegar upp var staðið var ég búinn að vinna fyrir síðustu greinina og þurfti ekki að reyna verulega á mig í henni. Ég var oft að keppa við menn sem voru tugum kílóa þyngri en ég og ég var alltaf í léttari kantinum í þessum keppnum. En samt unnum við Jón Páll nánast alltaf þegar það var verið að keppa í einhvers konar réttstöðulyftu eða hnébeygju. Menn vanmátu styrkinn í okkur.“

„Það koma enn mjög reglulega nætur þar sem mig dreymir Jón Pál“

Í þættinum ræða Magnús Ver og Sölvi um tímabilið eftir að Jón Páll lést og hvaða áhrif það hafði inn í kraftageirann í heiminum og íslenskt samfélag.

„Þetta var gríðarlegt áfall. Ég man að ég labbaði inn í æfingastöðina Gym 80 þennan örlagaríka dag og þá var hann þegar dottinn í gólfið og það var verið að reyna að hnoða hann og blása. Svo kom sjúkrabílinn og við vissum allir hver niðurstaðan var. Eftir þetta greip um sig mikil hræðsla hjá öllum í sportinu og ég fór sjálfur í tékk og lét tékka mig allan í bak og fyrir. Þetta gerði það að verkum að í heilt ár eftir að hann féll frá var hausinn á mér ekki rétt skrúfaður á. Það koma enn mjög reglulega nætur þar sem mig dreymir Jón Pál. Mig dreymir að hann sé enn á lífi en að hann sé bara í felum einhvers staðar með Elvis Presley. Þetta er mig margoft búið að dreyma og þó að ég muni yfirleitt ekki mikið draumana mína, þá man ég það alltaf þegar mig er búið að dreyma Jón Pál.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Magnús og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hatari rýfur tveggja ára þögn með óþægilegri nærveru gervigreindar

Hatari rýfur tveggja ára þögn með óþægilegri nærveru gervigreindar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórstjarna í hringiðu framhjáhaldsskandals – Grunsamleg hegðun talin staðfesta háværan orðróm

Stórstjarna í hringiðu framhjáhaldsskandals – Grunsamleg hegðun talin staðfesta háværan orðróm
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hálfbróðir Eminem bregst við fráfalli móður þeirra með harðorðri færslu

Hálfbróðir Eminem bregst við fráfalli móður þeirra með harðorðri færslu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þekktur leikari er heimilislaus og grátbiður um hjálp

Þekktur leikari er heimilislaus og grátbiður um hjálp
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kristín Péturs og Þorvar Bjarmi eiga von á barni

Kristín Péturs og Þorvar Bjarmi eiga von á barni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hart tekist á um heimanám á Íslandi – „Manni finnst að það sé verið að fjöldaframleiða agalausar væluskjóður í mörgum skólum í dag“

Hart tekist á um heimanám á Íslandi – „Manni finnst að það sé verið að fjöldaframleiða agalausar væluskjóður í mörgum skólum í dag“