Hjartaknúsarinn og kyntröllið Idris Elba, sem er helst þekktur fyrir leik sinn í frægu þáttunum The Wire og glæpaþáttunum Luther, þurfti að leita sér sálfræðimeðferðar út af óheilbrigðum venjum.
Sem stendur er leikarinn að starfa jafnfætis sem leikari og plötusnúður en hann hefur einnig reynt fyrir sér í leikstjórn. Hann segir að þessi vani hans, að hafa alltof mikið að gera, hafi haft neikvæð áhrif á heilsu hans, en hann kallar sig vinnualka.
„Ég er algjör vinnualki,“ sagði hann í hlaðvarpinu Changes with Annie Macmanus. „Og það er almennt ekki heilbrigt. Ekkert sem fer út í öfgar sem þessar er gott. Allt þarfnast jafnvægis.“
Idris sagði að hann hafi því leitað aðstoðar hjá sálfræðing til að taka lífið í gegn, heilsunnar vegna.
„Þetta er nokkuð mikið. Í meðferðinni minni hef ég hugsað mikið um breytingar, alveg svo mikið að taugatengingar eru farnar að færast til og breytast. Og þetta þýðir ekki að mér sé í nöp við sjálfan mig eða eitthvað í þá áttina, þetta þýðir bara að ég hafi tileinkað mér óheilbrigðar venjur og í meinum geira er maður verðlanaður fyrir þessar óheilbrigðu venjur.“
Þetta hafi skapað vítahring þar sem hann hafi stöðugt fundið fyrir hvatningu til að leggja enn harðar að sér, og taka að sér enn fleiri verkefni. Þessi hegðun hafi nefnilega borið árangur og verið verðlaunuð. Þetta bitni samt rosalega á einkalífinu og hafi hann skynjað að tími væri kominn til að finna betra jafnvægi.
Hann sé með vinnustofu heima hjá sér sem hafi orðið hans griðastaður, þó hann hafi setið þar til að undirbúa næstu verkefni go skref.
„Ég gæti verið að vinna við kvikmynd í 10 daga, taka upp atriði neðansjávar þar sem ég þarf að halda niðri í mér andanum í sex mínútur, og svo kem ég heim og sit í vinnustofunni minni og upplifi afslöppun, frekar en með því að sitja í sófanum fjölskyldunni minni – það er ekki gott er það nokkuð? Þarna hafði ég vanið mig á að upplifa afslöppun í vinnunni og því þurfti ég að breyta, því lifið getur ekki bara verið vinna.“
Hann segist þó engan veginn ætla að leggjast í helgan stein og líklega muni hann ávallt vinna mikið. Helsta breytingin sé að hann sé núna líka að gefa sér tíma fyrir afslöppun. Að kúpla sig út og slaka á.