fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Þeir voru gjörspilltir og fordekraðir forréttindapésar sem töldu sig öllum æðri – Ákváðu að fremja hið fullkomna morð sér til skemmtunar

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 28. janúar 2023 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nathan Leopold og Richard Loeb kynntust fyrst fyrir alvöru árið 1923. Báðir fæddust með silfurskeið í munni og voru fjölskyldur þeirra gríðarlega auðugar og valdamiklar í heimaborg þeirra, Chicago. 

Þeir áttu fleira sameiginlegt. 

Richard Loeb og Nathan Leopold.

Leopold var afspyrnu greindur og fékk inngöngu í háskólann í Chicago 15 ára gamall. Hann var mikill fuglaáhugamaður og fékk meira að segja birtar greinar í virtum tímaritum fuglaáhugamanna, yngstu allra slíkra.

Leopold hóf nám í lögfræði, var afbragðs nemandi, og virtist ekkert standa i veginum fyrir að hans biði sama þægilega forréttindalífið og hann hafði vanist frá fæðingu. 

Forréttindapésar

Foreldrar Loeb voru einnig milljónamæringar. Líkt og Leopold var Loeb afspyrnu góður námsmaður sem fékk inngöngu í sama háskóla í Chicago og Leopold aðeins 14 ára gamall. 

En honum leið illa í háskólanum. Skólafélagar hans voru allur töluvert eldri en hann og náði hann ekki að fóta sig í náminu með þeim afleiðingum að einkunnir hans voru undir meðallagi. 

Loeb hætti því á öðru ári sínu og flutti sig yfir í háskóla í Michican þar sem eyddi meiri tíma í að spila fjárhættuspil og lesa glæpasögur en að mæta í tíma. Hann hóf einnig að drekka ótæpilega á þessum tíma en náði þó að útskrifast, þótt að einkunnir hans væri ekkert til að hrópa húrra fyrir. 

Loeb fór heim til Chicago. Piltarnir höfðu kannast hvor við annan, enda báður úr efstu stéttum borgarginna, en þegar að leiðir þeirra lágu aftur saman haustið 1923 urðu þeir óaðskiljanlegir. 

Loeb var þá 18 ára og Leopold 19 ára. 

Leopold og Loeb

Óheilbrigt samband

Fljótt á litið virtust þeir ekki eiga margt sameiginlegt. Loeb var var félagslyndur og ör i skapi en Leopold forðaðist fólk, var reyndar illa við flesta, og kuldalegur í viðmóti. 

En Leopold var heillaður af Loeb og mjög hugsanlega ástfanginn af honum, sé litið til baka. 

Loeb var einstaklega glæsilegur ungur maður, hávaxinn, grannur og herðabreiður. Hann var ótrúlega sjarmerandi við alla sem hann hitti og bráðnuðu flestir fyrir brosi hans og skjalli. 

Leopold var einnig heillaður af kæruleysi Loeb sem hikaði ekki við stunda alls kyns skaðlega, tilgangslausa og hættulega hegðun á við að stela bílum, brjóta rúður í verslunum og kveikja í yfirgefnu húsnæði. 

Leopold dáði Loeb sífellt meira eftir því sem hann varð stjórnlausari. Vinátta þeirra var óheilbrigt samband tveggja ungra manna sem höfðu of mikið af peningum á milli handanna og höfðu aldrei þurft að sæta ábyrgð. 

Ofurmennið

Loeb naut þess að hafa stjórn yfir Leopold sem reyndar var með afbrigðum sjálfhverfur og lyginn. Leopold sagðist tala 15 tungumál reiprennandi, sem var haugalygi, og leit á sjálfan sig sem mikinn hugsuð og heimspeking. 

Sérstaklega var Leopold hrifin af hugmyndum Friedrich Nietzsche um Ubermensch eða ofurmenni.

Sem í afar einfaldaðri útgáfu eru einstaklingar sem hafa yfir það miklum líkamlegum, andlegum og vitsmunalegum yfirburðum að búa að þeir eru undanþegnir guðs og manna lögum. 

Friedrich Nietzsche

Leopold hélt því fram að slíkir einstaklingar hefðu engum skyldum að gegna gagnvart samborgurunum sínum, sem væru þeim óæðri að öllu leiti. Eina skylda ofurmennisins væri að uppfylla eigin hvatir sér til ánægju og yndisauka. Ofurmennið hefði réttindi sem trompuðu velferð annarra samfélagsþegna.

Aumingja Nietzche hefði snúið sér við í gröfinni, reyndar margsnúið sér, hefði hann vitað hvernig skrif hans áttu eftir að verða einfölduð og oft rangtúlkuð til að réttlæta alls kyns illvirki. 

Til að mynda voru nasistar afar elskir að þessari sömu kenningu.

Hinn fullkomni glæpur

Leopold og Loeb voru vissir um að vera slík ofurmenni. Greindari, þróaðri og æðri öllum öðrum. 

Þeir gengu því sífellt lengra í glæpum sínum, brutust inn og rændu og rupluðu auk þess sem skemmdarverk þeirra urðu sífellt alvarlegri. Brenndu þeir til að mynda heilu fyrirtækin til grunna. Auðvitað náðust þeir en þurftu aldrei að sæta ábyrgð. 

Sjálfir töldu þeir sig ávallt sleppa vegna yfirburðargreindar sinnar en í raun voru það pabbi og mamma sem kipptu í spotta og mútuðu þeim sem múta þurfti til að láta vandamálin hverfa. 

En smám saman fékk Loeb leið á innbrotum og íkveikjum. Hann vildi prófa eitthvað nýtt. Að fremja hinn fullkomna glæp – glæp sem sannaði í eitt skipti fyrir öll snilligáfu þeirra félaga. 

Morð. 

Morð sem væri svo úthugsað og fullkomlega framkvæmt að enginn myndi nokkurn tíma komast að sannleikanum. En honum vantaði félaga og hver annar kom til greina en hans besti vinur Leopold?

Loeb og Leopold

Bobby litli Franks

En Loeb var samt sem áður efins. Hversu viss var Leopold um kenningarnar sem hann ræddi sí og æ? Voru þær kannski bara mont og raus? Var Leopold í alvöru reiðubúinn að fremja morð? 

Ekki leið á löngu þar til Loeb fékk svarið upp í hendurnar.

Félagarnir sátu að drykkju þegar Leopold reyndi að fá Loeb til að stunda kynlíf með sér. Enginn veit með vissu hvort slíkt hafði gerst áður en Loeb samþykkti með því skilyrði að Leopold fremdi morð með honum. 

Leopold samþykkti. 

Loeb valdi fórnarlambið, fjórtán ára frænda sinn, Bobby Franks að nafni, dreng sem aldrei hafði gert neitt á hans hlut. Bjó Bobby meira að segja í sömu götu og Loeb.

Þann 21. maí 1924 hringdi Loeb í frænda sinn og bauð honum í bíltúr ásamt vini sínum, Leopold. Bobby var upp með sér að eldri frændi hans byði honum á rúntinn og tók boðinu fagnandi. 

Eftir að hafa ekið um í smá tíma stöðvuðu Loeb og Leopold bílinn, réðust á Bobby, kefluðu hann og börðu í höfuðið með sporjárni. 

Félagarnir héldu bíltúrnum svo áfram á meðan að Bobby blæddi út. 

Þegar að tvímenningarnir voru þess fullvissir um að Bobby væri látinn stoppuðu þeir á veitingastað til að fá sér að borða og fagna morðinu. 

Því næst óku þeir að lestarteinum, helltu sýru yfir andlit Bobby til að hann þekktist ekki og tróðu líkinu inn í holræsi. 

Réttarhöldin vöktu gríðarlega athygli.

Óttalegir fávitar

Þegar heim var komið vélrituðu þeir bréf, sögðust hafa rænt Bobby og kröfðust lausnargjalds. Sendu þeir svo bréfið til móður Bobby. 

Móðir Bobby fór með bréfið til lögreglu, frávita af skelfingu, og var rannsókn þegar hafin.

Sama dag fundu verkamenn líkið við brautarteinana. 

Loeb hafði vit á að láta lítið fyrir sér fara næstu daga en Leopold sótti í að tala við blaðamenn. Hann fór mikinn, kom fram með kenningar um hugsanlegan morðingja og lét meira segja hafa eftir sér að sjálfur fyndist honum ekki mikill missir að þessum litla leiðindapésa, Bobby Franks. 

Leonard og Loeb

Það varð svo að segja strax ljóst að ungu mennirnir, sem töldu sig yfirburðagreind ofurmenni, voru óttalegir fávitar. Til að mynda hafði fjöldi vitna séð þá með Bobby auk þess sem þeir skildu eftir slóð sönnunargagna sem auðvelt var að rekja 

Leopold hafði til að mynda misst gleraugu sín og lágu þau við hlið líksins. Það tók einnig enga stund að staðfesta að ritvél Leopold hafði verið notuð til að skrifa kröfuna um lausnargjaldið. 

Handtaka og réttarhöld

Leopold og Loeb voru handteknir og færðir til yfirheyrslu og játuðu báðir glæpinn svo að segja strax. Sögðu þeir ástæðu morðsins vera spennufíkn og hafi þeir verið vissir um að hafa framið hinn fullkomna glæp.

Útskýrðu þeir því næstu ofumannakenningu sína sem lögregla hafði minna en enga þolinmæði til að hlusta á. 

Hvorugur sagðist hafa notið morðsins en Leopold viðurkenndi að hafa haft mikinn áhuga á að vita hvernig tilfinning það væri að hafa tekið mannslíf. 

Leopold í gæsluvarðhaldi.

Sagðist hann vera svekktur þar sem honum liði nákvæmlega eins og fyrir morðið. 

Réttarhöldin vöktu gríðarlega athygli.

Það voru svo að segja allir handvissir um að hinir úrkynjuðu, spilltu og fordekruðu ungmenni fengju dauðadóm en aftur kom ríkidæmi mömmu og pabba til hjálpar. 

Foreldrar piltanna réðu bestu lögfræðinga landsins sem voru hverrar krónu virði, því þeim tókst á einhvern ótrúlegan hátt að sannfæra kviðdóm um að bæði Leopold og Loeb hefðu framið ódæðið í stundarbrjálæði! 

Í september 1924 voru Richard Loeb og Nathan Leopold báðir dæmdir í ævilangt fangelsi fyrir morðið á Bobby Franks plús 99 ár fyrir mannrán.

Þeir voru 19 og 20 ára gamlir. 

Richard Loeb var stunginn til bana af samfanga árið 1936. 

Fangamyndir af þeim félögum.

Nathan Leopold

Nathan Leopold reyndist vera fyrirmyndafangi. Hann fékk fram að kennsla fanga var stóraukin, bókasafn fangelsisins stækkað verulega, hann kenndi samföngum lestur, skrift og reikning og var sjálfboðaliði á sjúkradeild fangelsisins.

Hann bauð sig sig fram til læknatilrauna, meðal annars við rannsóknir á malaríu sem hann samþykkti að láta smita sig af við lyfjatilraunir. 

Sagði hann þetta vera sína leið til að reyna að  bæta fyrir glæp sinn.

Leopold var sleppt úr haldi árið 1958 og hélt til Puerto Rico á vegum hjálparsamtaka þar sem hann starfaði sem sjálfboðaliði á sjúkrahúsi. Hann kvæntist ekkju nokkurri sem átti blómabúð, tók meistaragráðu í félagsvísindum og starfaði við rannsóknir í heilbrigðisvísindum. 

Hann var virkur í félagi fuglaskoðara og gaf út bók um fuglalíf Puerto Rico árið 1963. 

Nathan Leopold lést af völdum hjartaáfalls á heimili sínu í Puerto Rico árið 1971, 66 ára að aldri. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram