fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Leit á fórnarlömb sín sem tilraunadýr – Sviplausi siðleysinginn

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Miðvikudaginn 27. júlí 2022 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Graham Young var það myndi í dag kallast nörd. Frá unga aldri sat hann svo klukkutímum saman í herberginu sínu og prófaði sig áfram með efnafræðisett sem pabbi hans hafði keypt handa honum. Drengurinn var með afbrigðum greindur og eðlilegast hefði verið að telja að hann ætti fyrir sér bjarta framtíð innan raunvísinda.

En svo átti ekki eftir að verða. Langt því frá.

Graham Young sem barn.

Einfari

Graham var fæddur í London þann 7. september 1947 og dó móðir hans úr berklum þegar hann var í frumbernsku. Faðir hans var miður sín af sorg og treysti hann sér ekki til að sjá um þriggja mánaða ungabarn auk tveggja ára dóttur.  Var Graham því sendur til Winnie frænku sinnar og elskuðu þau Winnie og maður hennar Graham litla sem eigið barn. Og sennilega hefur Winnie verið eina manneskjan í lífi Graham sem segja má að hann hafi komið nálægt því að elska sjálfru. Faðir Graham gekk aftur í hjónaband með konu að nafni Molly þremur árum síðar og flutti Graham aftur heim en hreint ekki sáttur.

Hann ólst upp sem einfari og gerði lítið sem ekkert í því að umgangast og leika við önnur börn.

Þess í stað fékk hann gríðarlegan áhuga á efnafræði og ekki síst eiturefnafræði. Hann hafði einnig áhuga á að lesa um sönn sakamál og sankaði að sér tímaritum sem birtu slíkar sögur. Hann var einnig áhugasamur um yfirskilvitlega hluti og galdra og átti það til að pynta ketti og drepa ketti nágrannanna sem einhver konar fórn.

Safnaði eitri

Faðir hans leit svo á að sonur sinn væri einfaldlega sérlundaður og því feginn að drengurinn hefði í það minnsta eitthvað áhugamál. Því keypti hann handa piltinum veglegt efnafræðisett í þeirri von að Graham myndi finna sér farveg innan raunvísindageirans. Graham gat dundað sér við settið við svo klukkustundum skipti og gerði í raun fátt annað. Skólasystkini hans kölluðu hann ,,brjálaða prófessorinn” og forðuðust eins og heitan eldinn að eiga samskipti við hann.

Reyndar voru þau flest hrædd við þennan sviplausa dreng sem fátt vildi ræða nema ofbeldi og hryllingsverk.

Graham var nokk sama, hann fyrirleit skólafélagana og taldi sig þeim æðri.

Brátt þreyttist Graham á efnafræðisettinu og vildi gera meiri og flóknari tilraunir. Tókst honum að kaupa alls kyns eiturefni með því að fullvissa seljendur um að hann væri mun eldri háskólanemi í efnafræði. Mun minna eftirlit var með sölu á slíkum á þessum árum og tókst Graham að sanka að sér alls kyns efnum og jurtum

Þegar Graham var þrettán ára veiktist skólafélagi hans alvarlega af óútskýrðri eitrun en lifði af. Sá hafði vogað sér að gagnrýna Graham en enginn áttaði sig á tengingunni.

Veikdindi og dauði

Hegðun hans varð sífellt einkennilegri. Graham fékk allt að því sjúklegan áhuga á Hitler og nasisma og fór að ganga með hakakross saumaðan í föt sín. Hann hélt langar ræður um ágæti nasisma yfir bekkjarsystkinum sínum auk þess að hreykja sig af því að vera göldróttur og með tengsl við ill öfl.

Í nóvember 1961, tæpu ári eftir veikindi skólafélagans, veiktist Winifred eldri systir Graham og lýsti það sér í sársaukafullum magakrömpum. Rannsóknir sýndu að hún hefði drukkið te blandað hinni baneitruðu sjáaldursjurt (belladonna). Föður þeirra grunaði að Graham bæri á því ábyrgð en taldi að um óhapp hefði verið að ræða. Winifred lifði eitunina af en ekki löngu síðar veiktist Molly, stjúpmóðir Graham, alvarlega og lést hún snögglega í apríl 1962. Faðir hans veiktist einnig illa en náði sér eftir sjúkrahúsvist.

Winifred, systir Graham. Hann eitraði einnig fyrir henni.

Faðir Graham átti bágt með ýta frá sér þeirri hugsun að sonur hans ætti átt þáttum í þessum harmleikjum en gat ekki hugsað þá hugsun til enda enda um einkason hans að ræða. Einhverju öðru hlyti um að vera að kenna.

Jafnvel þótt að Graham sprengdi upp eldhús fjölskyldunnar.

Winnie frænka

En það var ein manneskja sem ekki var jafn bláeygð á Graham aðrir og það var Winnie frænka, sú hin sama og hafði séð um Graham fyrstu árin. Hún vissi allt of vel hvað hann var fær um og fékk táningsfrænda sinn til að fara til sálfræðings, enda hlýddi Graham frænku.

Sálfræðingnum brá svo mjög við spjallið að bað frænkuna að kalla til lögreglu hið snarasta.

Mánuði eftir morðið á Molly var Graham handtekinn. Hann játaði að hafa eitrað svo vikum saman fyrir stjúpmóður sinni með efninu antímon en Molly hafði byggt upp meira þol fyrir efninu en hann átti von á. Graham missti því þolinmæðina og skipti yfir í þallíum sem olli hinum sársaukafulla dauðdaga hennar næsta dag.

Hann játaði einnig að hafa eitrað fyrir föður sínum, systur og skólabróðurinum. Hann gaf enga skýringu aðra en hafa verið forvitin yfir verkun hinna ýmsu tegundum eitra og var nákvæmlega sama um að hafa banað stjúpu sinni, konu sem ávallt hafði sýnt honum ástúð og gengið honum í móðurstað.

Graham hafði hvatt föður sinn til að láta brenna Molly og því var engin leið til að staðfesta frásögn piltsins.

Sáu yfirvöld sér lítið annað fært en að vista hinn 14 ára gamla Graham á hinu víðfræga Broadmoor geðsjúkrahúsi og var hann eðli málsins samkvæmt langyngstur sjúklinga.

Graham Young var aðeins fjórtán ára þegar hann var handtekinn fyrir morð.

Dvölin á Broadmoor

Merkilega margir sjúklingar veiktust af óútskýrðum orsökum meðan á dvöl Graham stóð og lést einn þeirra, að því virtist af völdu blásýru. Graham mun hafa hatað viðkomandi vegna þess eins hversu hátt hann hraut og hafði Graham kvartað yfir að hroturnar héldu fyrir honum vöku. Margir hugsuðu sitt en aftur á móti gat enginn skilið hvernig Graham hegði getað orðið sér úti um blásýru í rammlokuðu sjúkrahúsinu.

En ekki má gleyma yfirburðarkunnáttu Graham á sviði efnafræði sem reynar var svo yfirgripsmikil að seinni tíma rannsóknir hafa leitt í ljós að hann hefði getað framleitt eitur á við blásýru aðeins með notkun jurta úr görðum Broadmoor.

Ekkert sannaðist þó og var látið úrskurðað sem sjálfsvíg.

Eftir átta ára dvöl á Broadmoor, árið 1970, kvað lærð nefnd sérfræðinga spítalans upp úr um að Graham væri læknaður af allri morðfýsn og honum bæri því að sleppa. Hjúkrunarfræðingur var beðin um að færa unga manninum fréttirnar og fraus hreinlega í henni blóðið þegar hann svaraði því einu til að hann myndi myrða eina manneskju fyrir hvert ár sem hann hefði verið látinn dveljast á sjúkrahúsinu. Athugasemdin var skráð í skýrslu hans en kom þó ekki í veg fyrir að Graham yrði sleppt.

Bauðst til að sjá um kaffið

Graham flutti inn á Winnie frænku og mann hennar og hóf fljótlega aftur efnafræðitilraunir sínar. En þá hafði frænka fengið nóg af eiturbrasinu og vísaði honum á dyr. Faðir hans og systir neituðu alfarið að hýsa hann og leigði hann sér því herbergi og vingaðist við 34 ára gamlan nágranna sinn. Fóru þeir oft í kvikmyndahús eða á pöbbinn saman eða allt þar til granninn veiktist heiftarlega eftir að hafa þegið vínglas í heimsókn hjá Graham.

Hann lifði af en átti eftir að kljást við alvarlega veikindi allt þar til hann lést langt fyrir aldur fram. .

Graham hóf því næst störf hjá fyrirtæki sem framleiddi ljósmyndabúnað fyrir herinn. Meðal þeirra efna sem þar voru notuð var einmitt þallíum, uppáhaldsefni Graham. Yfirmenn hans vissu af vist hans á Broadmoor en vegna ungs aldurs var ástæðan fyrir veru hans þar ekki gefin upp.

Graham virtist ósköp almennilegur maður, fremur sérkennilegur í háttum en ekki á neitt hátt hættulegur. Hann starfaði við almenn skrifstofustörf og þegar hann bauðst til að sjá um að hita te og kaffi handa samstarfsfólki sínu var því tekið fagnandi.

En á örskotsstundu byrjuðu starfsmenn að hrynja niður eins og flugur með magaverki, uppköst og niðurgang, og var skæðri umgangspest kennt um.

Hroki, fangelsun, dauði

Að því kom að einn samstarfsmanna Graham, maður að nafn Bob Eagle, lést þann 7. júlí 1971 og annar, Fred Briggs, lést nokkrum dögum síðar. Voru þá yfir 70 starfsmenn fyrirtækisins fárveikir og ljóst að eitthvað annað og meira var á seyði en flensuskítur.

Graham í fangelsinu nokkrur árum fyrir dauða sinn.

Það var hroki Grahams sem varð honum að falli. Hann spurði lækni fyrirtækisins hvort hann hefði íhugað hvort um þallíum eitrun væri að ræða fyrst efnið væri notaði til framleiðslu í verksmiðjunni. Þuldi hann upp úr sér mögulega verkun efnisins á mannslíkamann. Læknirinn varð steinhissa á mikilli þekkingu unga mannsins á efninu og áhrifum þess og lét yfirmenn vita. Þeir höfðu strax samband við lögreglu.

Á heimili Graham fannst dagbók hans þar sem hann hafði skráð niður nákvæmlega hversu mikið og hvaða eitur hann hafði byrlað hverjum. Einnig fannst þallíum, stolnu úr verksmiðjunni, í fórum hans. Graham skipti ekki um svip við yfirheyrslur og játaði á sig morðin. Aðspurður um hvort hann iðraðist gjörða sinna sagði hann enga ástæðu til, fólkið hefði ekki verið merkilegra en mýs á tilraunastofu í hans huga.

Árið 1972 var Graham Young dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir tvö morð og fjölda tilrauna til manndrápa. Hann fannst látinn í klefa sínum árið 1990 og var dánarorsök úrskurðuð hjartaáfall.

En þeir margir sem gruna að Graham Young, langþreyttur á fangelsislífinu, hafi framkvæmt sína síðustu tilraun og þá á sjálfum sér. Hann var 42 ára gamall.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“