fbpx
Föstudagur 01.júlí 2022
Fókus

Fyrsti kvenkyns fjöldamorðingi Bandaríkjanna – Danglaði í reipinu og ákallaði skrattann

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Föstudaginn 17. júní 2022 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lavinia Fisher var ung kona sem rak ódýrt en vinsælt gistihús, Six Mile Wayfarer House, rétt utan í Charleston í Suður Karólínufylki í upphafi nítjándu aldar. Henni er lýst sem afspyrnu fallegri og sjarmerandi konu sem sinnti gestum sínum alúð. Margir gestanna voru farandsölumenn eða aðrir karlmenn sem áttu leið til borgarinnar vegna viðskipta af einhverju tagi.    

Hún er einnig af sumum talin vera fyrsti kvenkyns fjöldamorðingi Bandaríkjanna. 

Daður og te

Lavinia rak gistihúsið ásamt eiginmanni sínum, John, og voru ungu hjónin bæði virt og vinsæl í samfélaginu. Jafnvel þótt að pískrað væri um að daður Laviniu við gestina ætti það til að ganga helst til of langt. Gestirnir voru hins vegar upp með sér og þegar að Lavinia sneri samtalinu að starfi þeirra og fjármálastöðu voru herramennirnir áfjáðir í hreykja sér af efnum sínum. 

Ef að viðmælandinn reyndist vera loðinn um lófana færði Lavina viðkomandi heitt te fyrir svefninn. Teið var aftur á móti blandað laufum lárviðarrósarinnar sem eru baneitruð. 

Þegar að liðið var á nóttu læddist John bóndi hennar svo upp í herbergi gestsins. Sumir segja að teið hafi verið notað sem morðvopn eða aðrir halda fram að teið hafi aðeins svæft gestina og hafi John myrt mennina eftir að hafa rænt þá. 

Í sumum sögum af Laviniu er fullyrt að Fisher hjónin hafi komið fyrir fallhlerum undir rúmum í þeim herbergjum sem mennirnir voru. Hafi þeir verið notaðir til að henda líkunum niður í kjallara gistihússins. 

Spilasvind og kúastuldur

Sögusagnir um hjónin á gistihúsinu hófust með kvörtunum yfir að hópur svikahrappa stundaði umfangsmikið og skipulagt svindl í pókerspilum sem fram fóru á gistihúsum, ekki síst Six Mile Wayfarer House, svo og öðru gistihúsi í nágrenninu, Five Mile House. 

Ennfremur sakaði bóndi í nágrenninu þennan sama bófahóp um að hafa gengið lengra en að svindla í spilum og fullyrti hann að hópurinn hefði stolið frá sér kú. Nafn gistihússin kveikti bjöllum hjá lögreglu þar sem að minnsta kosti sex menn höfðu aldrei skilað sér þaðan og virtust gufaði upp með öllu.

Það er næstum öruggt að konan á myndinni er ekki Lavinia. Aftur á móti hefur þessi ljósmynd oft verið tengd sögum af henni.

Þessi bófahópur var vissulega til og voru John og Lavinia Fisher tengd honum, jafnvel forystumenn hans. 

Eftir því sem raddirnar urðu háværari fór hópur manna að Five Mile gistihúsinu, ráku íbúa á brott og brenndu svo til grunna. Því næst fóru þeir að gistiheimili Fisher hjónanna sem höfðu fengið veður af komu þeirra og flúið. Því var maður að nafni David Ross skikkaður í að standa vörð ef svo skildi fara að hjúin, eða aðrir meðlimir hópsins, skiluðu sér til baka. Daginn eftir komu tveir meðlimir hópsins í gistihúsið, réðust á Ross, bundu og höfðu á brott með sér á fund Fisher hjónanna.

Þegar að Ross sá Laviniu létti honum. Auðvitað myndi þessa fallega kona sjá aumur á honum. En þess í stað reyndi Lavinia að kyrkja Ross og skellti höfði hans í gegnum gluggarúðu. 

Ross náði að flýja en hópurinn hélt á gistiheimilið og hélt Lavinina áfram að taka á móti gestum og þjóna þeim eins og ekkert hefði í skorist. 

Líkin í kjallaranum 

Sennilega hefði málið blásið yfir og gleymst ef að Lavinia hefði látið staðar numið en svo var ekki. Innan skamms bauð hún herramanni að nafni John Peoples bolla af teinu sínu. Það varð Peoples til gæfu að hann drakk ekki te en til að sýna kurteisi þáði hann bollann og hellti svo innihaldinu úr því þegar að Lavinia sá ekki til. Eftir að því virtist notalegt spjall, fylgdi Lavinia Peoples í herbergi sitt og óskaði honum góðrar nætur. En hann var hugsi. Eftir á séð hafi hann kannski látið fullmikið uppi. Peoples áttaði sig á að hann hefði aldrei átt að segja orð um þau verðmæti sem hann hafði í fórum sínum og ákvað að vaka alla nóttina, svona til öryggis. 

Peoples kom sér fyrir í stól en að því kom að hann dottaði. Hann vaknaði við hávaða og sá að í stað rúmsins var risastórt gat í gólfi herbergisins. Peoples flúði út um glugga, náði í hest sinn og reið eins og elding inn í Charleston til að segja yfirvöldum sögu sína. Nú vorum komin tvö vitni gegn Laviniu, David Ross og John Peoples, og taldi fógeti að nú væri nóg komið.

Hópi manna undir forystu fógeta hélt til gistihússins í febrúar 1819 og voru John og Lavinia Fisher handtekinn auk fjögurra annarra úr hópnum. Því næst var kveikt í gistihúsinu. Í hlöðunni fannst beljan stolna. 

Sagan segir að þegar farið hafi verið að grafa í rústum gistihússins hafi fundist leynigöng, niðurgrafin herbergi og búnaður til að opna fallhlera. Sömuleiðis mikið magn af eigum horfinna hótelgesta. Svo og líkamsleifar og það mikið af þeim. Svo mikið var sagt hafa fundist af mannabeinum að enginn treysti sér til að kasta nákvæmri tölu á.

Hengd í brúðarkjólnum 

John og Lavinia Fisher lýstu sig bæði saklaus við réttarhöld en voru dæmd til hengingar í maí 1819. Þeim var aftur á móti gefin tími til að áfrýja dómnum. Hjónin deildu fangaklefa og var gæslan það slæleg að þeim tókst að búa til reipi úr ábreiðum og renna því í gegnum gat á veggnum sem John hafði brotið upp. John náði að komast út en þegar kom að Laviniu slitnaði reipið. 

John vildi ekki flýja án konu sinnar og var gripinn við að reyna að ná henni út. Í janúar 1820 var áfrýjunarbeiðni þeirra hafnað og skildu þau vera hengd mánuði síðar svo þeim gæfist tími til að bjarga sálu sinni með bænahaldi. 

Gamla fangelsið sem hýsti Fisher hjónin. Þau voru tekin af lífi í bakgarðinum.

John grátbað prestinn sem þeim var fengin um að hjálpa sér til himna en Lavinia sagði ekki orð og taldi sig örugga þar sem lögin kvöddu á um að ekki mætti taka gifta konu af lífi. Dómari svaraði því til að það væri ekkert sem bannaði að taka ekkju af lífi. John yrði einfaldlega hengdur á undan. 

Sagan segir að að morgni 18. febrúar hafi John gengið að aftökupallinum ásamt prestinum, farið með bænir og  lýst yfir sakleysi sínu við áhorfendur. Þar næst var hann hengdur. 

Lavinia var aftur á móti ekki svo róleg. Sagan segir hana hafa klæðst brúðarkjól sínum og þurft hafi að draga hana öskrandi og grátandi í hvítum kjólnum að pallinum. Hún mun hafa grátbeðið um miskunn en þegar að ljóst var að það væri til einskis öskraði hún að áhorfendum að einhver hefði skilaboð til helvítis myndi hún færa þau. Lavinia var enn bölvandi og ragnandi þegar að hún hent sér fram af pallinum en þar sem böðullinn hafði ekki komið reipinu almennilega fyrir á hálsin hennar hálsbrotnaði hún ekki við stökkið. Þess í stað mun Lavinia hafa danglað í reipinu og ákallað skrattann á meðan hún kafnaði. Sögðust áhorfendur aldrei hafa séð aðra eins illsku brenna úr augum nokkurrar manneskju. 

Lavinia Fisher var 27 ára gömul þegar hún dó.

 Sannleikurinn

Hvað er satt og hverju er logið í sögunni af Laviniu Fisher og manni hennar er erfitt að segja til um. Nokkrar greinar eru til í blöðum þessa tíma og staðfesta þær að gistihús Fisher hjónanna brann og þau hengd fyrir morð. En sú frétt er langt frá því að vera jafn dramatísk og sagan sem vinsæl hefur orðið. Hvergi er minnst á brúðarkjól, grátur né skilaboð til andskotans. Þess í stað mun hjónin hafa faðmast í þögn  áður en þau voru hengd samtímis.  

Það er einnig býsna langsótt að undir gistihúsinu hafi fundist leyniherbergi. Hvað þá búnaður til að opna fallhlera. Reyndar má færa rök fyrir því að Fisher hjónin hafi engan myrt heldur verið smáglæpamenn, stundað spilasvindl og stolið frá gestum sínum með aðstoð vina. Jafnvel tekið einstaka belju ófrjálsri hendi. Eða verið alsaklaus.

Þegar að síðari tíma fræðimenn fóru að kanna málið betur kom í ljós að hinn mikli fjöldi líkamsleifa í grunni gistihússin er skáldskapur einn. Þar var ekkert að finna en tvö mannslík fundust aftur á móti í skógi nálægt gistihúsinu um svipað leiti. Ekkert tengir þann líkfund við Laviniu eða John. 

Það má jafnvel færa rök fyrir því að allt málið gegn Laviniu og bónda hennar hafi verið uppdiktað af yfirvöldum til að komast yfir landareign þeirra. Herinn var í það minnsta snöggur að byggja hersjúkrahús þar sem gistihúsið stóð. 

Hvað Lavinia Fisher hafði, eða hafði ekki, á samviskunni verður aldrei vitað. Hvort um er að ræða fyrsta kvenkyns fjöldamorðingjann eða ógæfusama unga konu sem var fórnað í samsæri spilltra yfirvalda.

Sagt er að draugur Lavinu ráfi um ganga fangelsins þar sem hún dvaldi síðasta ár sitt á lífi. Árið sem var henni hræðilegast.

Lavinia er bæði einn þekktasti og krafmesti draugur borgarinnar og sver fjöldi fólks fyrir að hafa hitt á hana, svífa glottandi um gangana. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Vítalía biðst afsökunar á að hafa brugðist öðrum þolendum

Vítalía biðst afsökunar á að hafa brugðist öðrum þolendum
Fókus
Í gær

Sannleikurinn að baki kynlífshjálpartækjunum á heimili Gerðar í Blush

Sannleikurinn að baki kynlífshjálpartækjunum á heimili Gerðar í Blush
Fókus
Fyrir 3 dögum

Netverjar hafa nóg að segja um nýju vaxstyttuna af Billie Eilish

Netverjar hafa nóg að segja um nýju vaxstyttuna af Billie Eilish
Fókus
Fyrir 3 dögum

Rifjar upp gamla partýmynd af Sigmari Guðmunds – „Hver man ekki eftir þessu tímabili alþingismannsins“

Rifjar upp gamla partýmynd af Sigmari Guðmunds – „Hver man ekki eftir þessu tímabili alþingismannsins“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þess vegna eiga karlmenn að pissa sitjandi

Þess vegna eiga karlmenn að pissa sitjandi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Allt sem við vitum um nýja kærasta Svölu – Býr í rúmlega 180 milljón króna höll með pabba sínum

Allt sem við vitum um nýja kærasta Svölu – Býr í rúmlega 180 milljón króna höll með pabba sínum