fbpx
Þriðjudagur 05.júlí 2022
Fókus

Þau voru auglýst og síðar seld á tvo dollara – Harmsaga Chalifoux systkinanna

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Mánudaginn 9. maí 2022 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í ágúst árið 1948 birtist ljósmynd í blaði í Indianafylki Bandaríkjanna þar sem kona sést auglýsa fjögur börn sín til sölu. Í dag finnst fólki hugmyndin um sölu á börnum ekki bara hræðileg heldur glæpsamleg, en staðreyndin er aftur á móti sú að slíkir hlutir gerðust fyrir alvöru og fyrir allra augum á Vesturlöndum eftirstríðsáranna.

Á myndinni sjást fjögur börn sitja við hlið skiltis sem auglýsir þau til sölu en barnshafandi móðir þeirra reynir að fela andlit sitt fyrir myndavélinni. Í greininni sem fylgdi ljósmyndinni var útskýrt að hér væri um að ræða hina 24 ára gömlu Lucille Chalifoux og hefði maðurinn hennar, Ray, misst vinnu sína sem kolabílstjóri. Það væri verið að bera þau út og án nokkurra leiða til að sjá fyrir fjórum börnum og einu á leiðinni sæju þau  sér ekki annað fært en að selja börn sín. Börnin á tröppunum voru þær Lana 6 ára og RaeAnn 5 ára á efra þrepinu og Milton 4 ára með Sue Ellen 2 ára á því neðra.

Myndin vakti mikla athygli víða um Bandaríkin og hafin var söfnun fyrir fjölskylduna auk þess fjöldi fólks bauðst til að taka að sér börnin. Töluvert fé safnaðist en enginn veit þó með vissu hvar það fé endaði. Töldu sumir að um uppstillingu væri að ræða af hendi ljósmyndarans og hefði Lucille fengið greitt fyrir. Það má vel vera og hugsanlegt er að söfnunarféð hafi jafnvel skilað sér til fjölskyldunnar og ef til vill frestað sölunni.

Staðreyndin er aftur á móti sú að innan tveggja ára hafði Ray yfirgefið fjölskylduna og Lucille selt öll fjögur börnin auk barnsins sem hún gekk með þegar myndin var tekin. Lucille átti síðar eftir að eignast fjórar dætur til viðbótar með nýjum eiginmanni og hélt hún öllum þeim telpum.

RaeAnn, David og Milton rétt fyrir söluna árið 1950.

Löngu síðar minntist RaeAnn þess að þegar að þegar að móðir hennar var að selja hana fyrir tvo dollara, þá sjö ára gamla, hafi Milton litli bróðir hennar grátið svo mikið að hjónin ákváðu að taka hann líka. Hvort hann kostaði einnig tvo dollara eða var kaupauki er ekki vitað. Þótt dvölin á æskuheimilinu hafi ekki verið þeim góð batnaði hún ekki við söluna.  Kaupendurnir voru hjónin John og Ruth Zoeterman sem breyttu nöfnum þeirra í Beverly og Kenneth þótt þau væru aldrei formlega ættleidd. Hjónin fluttu þau með sér á bóndabæ sinn þar sem börnin voru notuð sem ókeypis vinnuafl, oft hlekkjuð í hlöðunni, og þrælað út frá sólarupprás til sólarlags.

RaeAnn og Milton ásamt Zoeterman hjónunum.

Yngsta barnið David, sem var ófæddur þegar að myndin var tekinn, var seldur tveggja ára gamall og var bæði grindhoraður og útbitinn af pöddum þegar að hinir nýju foreldrar tóku við honum. Hann var heppnari en systkini sín og fékk strangt en gott uppeldi í nágrenni við þau RaeAnne og Milton. Fósturforeldrar hans voru hreinskilnir við David um uppruna hans og hjólaði hann stundum að heimsækja systkini sín. En eftir að hafa losað þau úr hlekkjunum í hlöðunni elti fokreiður John Zoeterman drenginn heim og hefði barið hann til óbóta ef að fósturfaðir Davids hefði ekki stoppað hann af. David fór aldrei á býlið aftur.

Það áttu eftir að liða áratugir áður þremenningarnir vissu hvað orðið hefði um Lönu og Sue Ellen.

Sue Ellen og RayAnn náðu að hittast fyrir fráfall Sue Ellen. Til hægri er RayAnn með kjólinn sem hún var seld í.

Árin liðu í eymd fyrir RaeAnne og Milton. Þegar að RaeAnne var sautján ára var henni rænt og nauðgað og varð hún ólétt. Fósturforeldrar hennar sendu hana á heimili fyrir ógiftar, vanfærar stúlkur þar sem hún ól barnið sem Zoeterman hjónin samþykktu að ala upp. Þau létu aftur á móti ættlæða telpuna 6 mánaða gamla að RaeAnne forspurðri og fékk hún nóg, flutti út af býlinu og sneri aldrei til baka. Í viðtali árið 2018 sagðist RaeAnne enn ekki búin að gefa upp vonina að finna dóttur sína en allar tilraunir til þessa hefðu verið árangurslausar.

David í viðtali árið 2018.

Milton brást við hungrinu og misþyrmingunum á býlinu með því að sýna af sér sífellt ofbeldisfyllri hegðun. Hann flúði býlið og flutti til Lucille í einn mánuð áður en honum var hent út og lenti hann fljótlega í unglingafangelsi. Hann var greindur með geðklofa og dvaldi á geðsjúkrahúsi í nokkur ár en átti síðar átti eftir að hafa ofan af sér sem farandverkamaður. Hann kvæntist nokkrum sinnum og eignaðist þó nokkuð mörg börn en ekki er vitað nákvæmlega hversu mörg. Milton glímdi alla tíð við geðræn vandamál og vildi lítið ræða æsku sína, sagði sig einfaldlega ekki muna hana.

Þrátt fyrir góða æsku var David aldrei sáttur í eigin skinni og strauk að heiman 16 ára gamall og gekk í herinn sem hann sagði hafa hjálpað sér við að ná áttum.

RaeAnn árið 2018.

Sue Ellen reyndist hafa verið alin upp hjá hjónum í Chicago en Lana var eina barnið sem fór til ættingja því að amma hennar tók við henni. Hún var líka eina barnið sem sneri aftur, því þegar Lana var orðin stálpuð sótti Lucille hana, að því virtist til að passa fjórar ungar hálfsystur sínar. Lana giftist síðar og átti sjö börn sem segja hana aldrei hafa viljað ræða æsku sína að ráði.

David hitti Lucille á fullorðinsárum, hún sagði hann líkjast föður sínum en vildi lítið tala við hann né gefa skýringu á því að hafa selt hann frá sér. David var aftur á móti það eina af börnunum sem sýndi Lucille einhvern skilning og sagði ómögulegt að geta sér til um tilfinningar og hugarfar hennar þegar að hún seldi börnin. Hann sagði ennfremur að ekki mætti gleyma hlut föður hans í málinu því hvaða maður yfirgæfi fimm ung börn sín á þennan hátt?

Milton ásamt einum sona sinna rétt fyrir andlát hans árið 2016.

Hin börnin fyrirgáfu hins vegar móður sinni aldrei. Sue Ellen sagði hana eiga skilið að brenna í helvíti og Milton var þess fullviss um að Lucille hefði einfaldlega aldrei viljað þau. RaeAnne fullyrti alla tíð að það hefði verið til peningur fyrir mat á heimilinu en móðir hennar spilað bingó fyrir hvern eyri auk þess sem kærastinn sem flutti inn eftir brottför Ray hefði viljað losna við þau.

Systkinin náðu að tengjast með hjálp samfélagsmiðla og hittust loksins árið 2013 en þó án Lönu sem lést úr krabbameini árið 1998. Endurfundirnir voru þeim sérstaklega mikilvægir þar sem Sue Ellen var dauðvona af sökum lungnasjúkdóms. Hún hafði þá ekki séð systkini sín frá því hún var fjögurra ára gömul. Sue Ellen lést nokkrum vikum síðar. Milton lést árið 2016.

Þrátt fyrir andúð sína á Lucille náðu systkinin góðu og ástríku sambandi við hálfsystur sínar fjórar sem allar kváðust hafa átt góð æskuár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Króli skiptir um lið
Fókus
Fyrir 2 dögum

Leigir út eiginmanninn sinn

Leigir út eiginmanninn sinn
Fókus
Fyrir 2 dögum

Binný fór í fjórtán frjósemismeðferðir – ,,Þetta getur verið erfið þrautarganga vonar og vonbrigða“

Binný fór í fjórtán frjósemismeðferðir – ,,Þetta getur verið erfið þrautarganga vonar og vonbrigða“
Fókus
Fyrir 3 dögum

George var aðeins fjórtán ára – Átakanleg saga barnsins í rafmagnsstólnum

George var aðeins fjórtán ára – Átakanleg saga barnsins í rafmagnsstólnum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bauð dóttur sinni húsaskjól en sá eftir því þegar hún stal kærastanum

Bauð dóttur sinni húsaskjól en sá eftir því þegar hún stal kærastanum