fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Sakamál: Bíllinn á brúnni – Dularfullt hvarf Söru Stern

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 20. júní 2020 21:00

Vinirnir Liam, Sarah og Preston höfðu þekkst frá barnsaldri og voru mjög náin. Sarah Stern var 19 ára gömul þegar hún hvarf. Bíll hennar fannst yfirgefinn á brú. SKJÁSKOT/NBC-NEWS

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 2. desember árið 2016 fannst yfirgefinn bíll á fjölfarinni brú, Belmar Bridge, í New Jersey. Bíllinn var í eigu 19 ára stúlku sem fannst hvergi.

Talið var að Sarah Stern hefði fleygt sér fram af brú ofan í hyldjúpt fljót eftir að bíll hennar fannst yfirgefinn á brúnni síðla kvölds. Annað átti þó eftir að koma á daginn og þykir málið vera hið ótrúlegasta. Ef morðingi Söru hefði ekki játað glæpinn með afar kæruleysislegum hætti fyrir vini sínum er óvíst að málið hefði verið upplýst.

Lykillinn var í startaranum en engin merki um eiganda bílsins, hina 19 ára gömlu Söru Stern. Við eftirgrennslan lögreglu kom fljótt í ljós að síðast var vitað um ferðir hennar daginn áður en þá hafði hún sinnt erindum í bænum með vini sínum. Sarah bjó í Neptune City í New Jersey, en það er aðeins um fimm þúsund manna bær. Staður þar sem allir þekkja alla. Sarah var lífleg stúlka og stundaði íþróttir meðfram framhaldsskólanámi.

Líf hennar var þó ekki sorgarlaust fremur en annarra, en móðir hennar lést úr krabbameini nokkrum árum áður en þessir atburðir urðu. Eitt dálítið sérstakt var sagt um Söru, að hún væri sífellt að lýsa því yfir að hún ætlaði að flytja til Kanada, setjast að í Toronto. Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar um flutninga þangað hafði ekki orðið úr þeim og vinir hennar höfðu á orði að hún myndi aldrei fara þangað. Auglýst var eftir Söru með dreifiritum og bráðlega fór umfangsmikil leit í gang sem engu skilaði. Undir Belmarbrúnni rennur fljótið Shark River, víðáttumikið, djúpt og kalt.

Kafarar fundu Söru ekki í fljótinu. Tveir æskuvinir og jafnaldrar Söru, þeir Liam McAtasney og Preston Taylor, tóku virkan þátt í leitinni að Söru og aðstoðuðu lögregluna eftir megni. Liam sagði lögreglu að hann teldi að Sara hefði annaðhvort fyrirfarið sér eða látið sig hverfa til fyrirheitna landsins, Kanada. Hún hefði verið mjög döpur undanfarið, meðal annars vegna deilna við föður sinn um peningamál. Þá væri hún ekki búin að jafna sig á dauða móður sinnar.

Liam, Preston og Sarah höfðu verið vinir frá því í barnaskóla og vörðu miklum tíma saman. Framburður Liams hjá lögreglunni átti stóran þátt í því að lögregla áleit líklegt að Sarah væri annaðhvort í Kanada eða hefði hefði fleygt sér niður í hyldýpi Shark River.

Kvikmyndagerðarmaður með ótrúlega sögu

Anthony Curry heitir lítt þekktur, ungur kvikmyndagerðarmaður, sem sérhæfir sig í hryllingsmyndum. Hann hafði samband við lögreglu með óvæntar og ótrúlegar upplýsingar. Vinur hans, Liam McAtasney, hafði sagt honum að hann hefði í hyggju að myrða unga konu til að komast yfir peninga hennar. Anthony hafði ekkert gert með þessa frásögn til að byrja með, áleit þetta vera einhverja hugaróra.

Þegar Liam sendi síðan Anthony skilaboð og spurði hvort lögregla hefði nokkuð verið í sambandi við hann og spurt út í sig varðandi hvarf Söru, þá fór Anthony með þessar upplýsingar til lögreglunnar. Lögreglan bað Anthony um að freista þess að ná fram hljóðritaðri játningu hjá Liam. Það gekk ótrúlega vel. Hafði Anthony lítið fyrir því að sannfæra Liam um að hann væri með honum í liði og myndi ekki segja til hans. Er þeir félagar sátu í bíl, Anthony með hlerunarbúnað á sér, rakti Liam hvernig hann hefði myrt vinkonu sína og losað sig við líkið.

Hann hefði undirbúið verkið í marga mánuði og látið til skarar skríða kvöld eitt þegar Sarah var ein heima en faðir hennar var þá í Flórída. Morðástæðan var peningagræðgi. Móðir Söru hafði arfleitt hana að fjármunum, peningaseðlum sem geymdir voru í öryggishólfi á heimilinu. Sarah hafði náð að opna hólfið. Eitthvað olli því að Liam áleit upphæðina vera 100 þúsund dollara. En svo kom í ljós að þetta voru aðeins 7 þúsund dollarar.

Liam taldi sig vera að komast yfir fjármuni sem myndu breyta lífi hans og þess vegna ákvað hann að myrða vinkonu sína. Hann kyrkti Söru á heimili hennar og tók illvirkið heilan hálftíma. Er Sarah var látin hringdi hann í Preston og sagði honum að koma til að aðstoða sig við að koma líkinu fyrir. Þeir geymdu líkið í runna á lóðinni þar til skyggja tók. Síðan settu þeir það í aftursæti bíls Söru og Liam ók honum að Belmarbrúnni. Preston ók sínum eigin bíl á staðinn. Af brúnni vörpuðu þeir síðan líki Söru niður í Shark River og það hefur ekki fundist síðan. Þeir skildu bíl hennar eftir á brúnni og fóru til baka á bíl Prestons.

Sagðist hafa talið sig vera í áheyrnarprufu

Ótrúlegt þykir að Liam hafi komið upp um sig með þessum hætti. Lögregla hafði talið að kenningar hans um örlög Söru væru nokkuð trúverðugar og hann lá ekki undir grun þar til Anthony Curry gaf sig fram við lögreglu með upplýsingar um hann. Liam kom með þá skýringu á hljóðrituðu játningunni sem hann gerði við vin sinn að hann hefði talið sig vera í áheyrnarprufu fyrir næstu hryllingsmynd hans. Sú skýring var aldrei trúverðug og varð að engu þegar Preston játaði á sig samsekt. Hafði hann vitað af ráðagerð Liams allan tímann og samþykkt að aðstoða hann með þeim hætti sem raun varð á.

Lýsing Prestons á atburðum var fyllilega sambærileg við játningu Liams í bíl Anthonys Curry. Liam var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið og förgunina á líkinu. Preston var sakfelldur fyrir samsæri um að fremja morð og fyrir að taka þátt í að farga líkinu. Hann fékk 20 ára fangelsi. Glæpurinn þykir lýsa ótrúlegri siðblindu og fer í flokk með verstu glæpum sem framdir hafa verið í smábænum Neptune City.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“