fbpx
Föstudagur 19.ágúst 2022
Fókus

Ritdómur um Ungfrú Ísland: Skáldað skáld sem gæti hafa verið til

Jóhanna María Einarsdóttir
Sunnudaginn 2. desember 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skáldsagan Ungfrú Ísland, eftir Auði Övu, gerist á æviskeiði aðalsöguhetjunnar Heklu, sem flytur í bæinn til þess að vinna og skrifa. Við fjögurra ára aldur gýs eldfjallið Hekla (líklega 1947) og hefur óafturkræf áhrif á söguhetjuna. Þar hefur fæðst nýtt skáld, að vísu fjórum árum of snemma.

Bókin sýnir hlutverkin sem Heklu stendur til boða í samfélaginu sem hún fæðist inn í. Á leiðinni til Reykjavíkur er henni boðið að taka þátt í fegurðarkeppninni Ungfrú Ísland sem geti komið henni til útlanda. Ísey, vinkona Heklu, er að sama skapi víti til varnaðar. Ísey er föst í eiginkonu- og móðurhlutverki, hugsar og talar eins og skáld, skrifar stundum í óþökk eiginmanns síns, en gefur þó ekkert út. Einnig er að finna í bókinni konu sem klárar aldrei setningar sínar, klárar aldrei heila hugsun. En Hekla er hetja. Hún þrástagast við að skrifa sem hefur áhugaverðar afleiðingar í för með sér.

 

Vængstýfðar skáldsystur

Skáldkonan Hekla er líklega lauslega byggð á skáldkonunni Unni Benediktsdóttur Bjarklind sem ferðaðist um Evrópu, skrifaði undir dulnefninu Hulda og dó ári áður en Hekla gaus. Hulda var áhugavert, jafnvel frumlegt skáld og er einna þekktust fyrir að endurvekja þuluformið í ljóðaskáldskap. Hennar þekktasta ljóð, fyrir utan „Hver á sér fegra föðurland“ er án efa ljóðið „Ljáðu mér vængi“. Ungfrú Ísland er stútfull af myndmáli um fugla, lýsingum á fuglum og sögupersónur líkja sér við fugla. Það er því ekki fjarstæða að hugurinn tengi saman Heklu og Huldu.

„Grágæsamóðir,
ljáðu mér vængi,“
svo ég geti svifið
suður yfir höf.

Langt í burt ég líða vil
ljá mér samfylgd þína.
Enga vængi á ég til,
utan löngun mína,
utan þrá og æskulöngun mína.

Auður segir bókina fjalla um það hvernig samfélagið vængstýfir skapandi, viðkvæmt og næmt fólk og birtist það ljóslifandi í kærasta Heklu. Hann er sjálfur skáld og ætti að skilja sköpunarþörf Heklu. Samfélagið nær þó lúmskum tökum á honum og Hekla neyðist til þess að gera breytingar á lífi sínu. Vængstýfðasti fugl bókarinnar er ekki Hekla sjálf, heldur vinurinn Davíð Jón John Stefánsson Johnsson. Jón John er „hómósexúalisti“ eins og það er nefnt í bókinni og á tíma bókarinnar er slíkum karakterum ekki tekið vel. Þarna sést að þó svo einn hópur í samfélaginu fái aukin réttindi er alltaf þörf fyrir breytingar, því það eru alltaf einhverjir sem sitja eftir.

 

Karlar sem eigna sér verk kvenna

Auður Ava segist hafa viljað „… búa til frumlegan kvenrithöfund sem gæti hafa verið til ef samfélagið hefði verið öðruvísi“, eins og segir í bókmenntaþættinum Kiljunni. Þegar Hekla kemur í bæinn hefur hún fengið nokkur ljóð birt í virtum tímaritum, en aldrei undir eigin nafni, líkt og Hulda. Það kemur líka í ljós að aðrir karlrithöfundar hika ekki við að eigna sér verk Heklu ef á þá eru bornar sakirnar. Í bókmenntasögunni er fjöldi dæma þess að efast hafi verið um ágæti kvenrithöfunda. Þær jafnvel sagðar hafa fengið ótæpilega hjálp frá eiginmönnum sínum við handrit sín, eins og sagt var um Mary Shelley, höfund Frankenstein. Með Ungfrú Ísland nær Auður að snúa þessu við og setur spurningarmerki við að öll þau skáldverk, sem komið hafa út eftir karlkyns rithöfunda, séu í raun eftir þá. Þeir gætu allt eins hafa ljáð skáldsystrum sínum nafn sitt og vængi svo bækur þeirra yrðu gefnar út. Og til þess að setja punktinn yfir i-ið vísar kápan í hönnun Gísla B. Björnssonar á bókarkápu Dagleiðar á fjöllum eftir Halldór Kiljan Laxness, en að margra mati hefði nóbelsskáldið líklegast ekki verið svo afkastamikið ef ekki hefði verið fyrir eiginkonuna, Auði Sveinsdóttur.

 

Fimmta stjarnan

Hvort sem þú sérð Heklu frá Laugarvatni eða Selfossi líkist hún alltaf maganum á óléttri konu, kringluleit, löguleg útbungun. Hræringar hóta því að setja hana af stað þá og þegar enda er tími til kominn að jörðin fari bráðum að fæða af sér nýtt hraun.

Ég veit vel að gagnrýnendur eiga að gagnrýna bækur af hlutleysi og ábyrgð en ég held að ekki sé til betra hrós fyrir nokkuð skáld en að vita til þess að bók þess hafi veitt öðrum innblástur. Því má kannski líta á efnisgreinina að framan sem fimmtu stjörnuna í þessum fjögurra stjörnu dómi.

 

Höfundur: Auður Ava Ólafsdóttir

Útgefandi: Benedikt

239 bls.

****

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Tekjudagar DV: Þetta eru LXS-dívurnar með í laun – Ein með 72 þúsund á mánuði en önnur með yfir milljón

Tekjudagar DV: Þetta eru LXS-dívurnar með í laun – Ein með 72 þúsund á mánuði en önnur með yfir milljón
Fókus
Í gær

Tekjudagar DV: Harðnar í ári hjá Línu Birgittu og Gumma Kíró

Tekjudagar DV: Harðnar í ári hjá Línu Birgittu og Gumma Kíró
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stúlkan sem bjargaði 300 mannslífum

Stúlkan sem bjargaði 300 mannslífum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nýr íslenskur þakbar á meðal þeirra bestu í Evrópu

Nýr íslenskur þakbar á meðal þeirra bestu í Evrópu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Breska þjóðin stendur á öndinni og kemst lítið annað að – Stóra grátmálið krufið

Breska þjóðin stendur á öndinni og kemst lítið annað að – Stóra grátmálið krufið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Glamúrmorðinginn sem ljósmyndaði fórnarlömb sín á hryllilegan hátt

Glamúrmorðinginn sem ljósmyndaði fórnarlömb sín á hryllilegan hátt