fbpx
Laugardagur 14.september 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Hótelgisting nærri helmingi dýrari í Reykjavík en í Bergen og Hamborg

Eyjan
Þriðjudaginn 30. júlí 2024 08:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og flestir vita, er ferðaþjónustan orðin okkar veigamesta „útflutningsgrein“. Gjaldeyristekjur okkar, líka styrkur ísl. krónunnar (ISK), eru því mikið undir tekjum af ferðaþjónustu komnar. Útflutningur iðnvara skipti líka vaxandi máli, og sjávarútvegurinn gegnir áfram sínu veigamikla hlutverki fyrir útflutning og gjaldeyristekjur, þó í 3ja sæti sé.

Brýnt er því, annars vegar, að vel sé að ferðaþjónustu búið, hins vegar, að hún sé vel og skynsamlega rekin, af ábyrgð og fyrirhyggju, með langtímamarkmið í huga, þannig að greinin standi sig í alþjóðlegri samkeppni og erlendir ferðamenn vilji og geti, hafi efni á, að koma hingað og dvelja hér.

Menn eru varla að fara í það langa ferðalag, sem það er, að fljúga hingað út í mitt Atlantshafið fyrir minni tíma en 1-2 vikur. Þegar farið er í lengri ferðir til að komast á áfangastað verður viljinn til að dvelja lengur ríkur, og spilar dvalarkostnaður, ekki sízt gistikostnaður, þá stóra og sennilega afgerandi rullu.

Um 25 flugfélög munum fljúga til og frá Íslandi og tryggir sú umfangsmikla samkeppni að flugfargjöld séu samkeppnisfær og verði ekki hindrun fyrir því, að ferðamenn komi hingað.

Aðalkostnaðarliður ferðamanna er því kostnaður við hótelgistingu. Skal hann því skoðaður nokkur hér. Auðvitað eru matar- og bílaleigukostnaður líka veigamiklir kostnaðarliðir, en einkum matarkostnaður er opinn og sveigjanlegur og kemur hann því minna til skoðunar þegar ferðakostnaður er fyrir fram reiknaður og áfangastaður valinn.

Ég ákvað að skoða gistikostnað hér í Reykjavík, í Bergen í Noregi og í Hamborg í Þýzkalandi. Mín tilfinning er að þannig fáist nokkuð skýr mynd af því hvar og hvernig við stöndum í þessum samanburði. Annars vegar stendur annar norrænn bær eða borg, ekki ósvipuð Reykjavík, hins vegar ein af stórborgum meginlandsins.

Booking.com er einn öflugasti þjónustu- og milligönguaðilinn í Evrópu á sviði hótelbókana. Ég ákvað að fara þar inn með fyrirspurn fyrir tímabilið 30. júlí til 5. ágúst nk., en það eru 6 nætur.  Ég gaf upp að aðeins skyldu sýnd 4ra stjörnu hótel, fyrir tvo gesti í herbergi, með morgunverði.

Síðan valdi ég 10 beztu tilboðin á hverjum stað úr, og mun ég sýna þau hér fyrir neðan og þá um leið meðaltalskostnað við gistingu á þessum 10 hagstæðustu hótelum í þessar 6 nætur, og svo gistingarkostnað á nótt.

REYKJAVÍK:

  1. Reykjavik Natura-Berjaya EUR 1.296
  2. Reykjavik Marina-Berjaya EUR 1.440
  3. Hótel Ísland – Spa & Wellness EUR 1.534
  4. Hótel Reykjavík Grand EUR 1.818
  5. Hilton Reykjavik Nordica EUR 1.865
  6. Hotel Reykjavík Centrum EUR 1.880
  7. Fosshotel Reykjavík EUR 1.974
  8. Grandi by Center Hotels EUR 2.085
  9. Midgardur by Center Hotels EUR 2.085
  10. Exeter Hotel EUR 2.234.

(Hótel nöfn eru skrifuð með sama hætti og er á booking.com).

Meðaltalsgistikostnaður í þessar 6 nætur, á þessum 10 hótelum í Reykjavík, var þannig EUR 1.821, eða íslenzkar krónur, ISK, 273.100. Jafngildir það 45.500 krónum á nótt.Í sannleika sagt fór hálfpartinn um mig þegar ég var búinn að reikna út þessar tölur.

BERGEN:

  1. Comfort Hotel Bergen Airport EUR 742
  2. Quality Hotel Edvard Grieg EUR 776
  3. Scandic Kokstad EUR 822
  4. Scandic Flesland EUR 918
  5. Magic Hotel EUR 996
  6. Clarion Hotel Bergen Airport EUR 1.003
  7. Thon Hotel Bergen Airport EUR 1.063
  8. Scandic Bergen City EUR 1.186
  9. Zander K Hotel EUR 1.379
  10. Scandic Örnen EUR 1.415

Hér koma nokkuð fram flugvallarhótel, en flugvöllurinn í Bergen er aðeins 10-15 aksturmínútur frá miðbænum.

Meðaltalsgistikostnaður í Bergen þessar 6 nætur, á þessum 10 hótelum, var þannig EUR 1.030, eða ISK 154.500. Jafngildir það 25.750 krónum á nótt. Gistikostnaður í Bergen er því heilum 43% ódýrari en á sambærilegum hótelum í Reykjavík. Má þá hafa í huga, að í ýmsum mælingum mælist Noregur eitt dýrasta land í heimi.

HAMBORG:

  1. H4 Hotel Hamburg Bergedorf EUR 677
  2. ARCOTEL Rubin Hamburg EUR 832
  3. Crowne Plaza Hamburg-City EUR 944
  4. HYPERION Hotel Hamburg EUR 981
  5. NH Hamburg Altona EUR 991
  6. ARCOTEL Onyx Hamburg EUR 1.032
  7. Lindner Hotel Hamburg EUR 1.037
  8. Leonardo Hotel Hamburg EUR 1.132
  9. Radisson Blu Hotel Hamburg EUR 1.142
  10. THE SCOTTY Hotel Hamburg EUR 1.147

Meðaltalsgistikostnaður í Hamborg þessar 6 nætur, á þessum 10 hótelum, var þannig EUR 992, eða ISK 148.800. Jafngildir það 24.800 krónum á nótt. Gistikostnaður í Hamborg er því heilum 45% ódýrari en á sambærilegum hótelum í Reykjavík.

Yfirkeyrðir vextir eru auðvitað mikið aukaálag á hótelreksturskostnað hér í samanburði við Noreg og Þýzkaland, en hann þarf auðvitað að fjármagna með þessum dýru peningum, en að öðru leyti virðist mér kostnaður í Noregi, t.a.m. húnsnæðiskostnaður, sem teljast verður grunnkostnaður í þessu mati, vera svipaður og hér og launakostnaður er jafnvel lægri hér. Þessi mismunur á meðalgistingu, 45.500 hér, 25.750 í Bergen, er því með algjörum ólíkindum. Óefni!

Það, að heimsborgin Hamborg sé 45% ódýrari en Reykjavík, en húsnæðiskostnaður er þar hár jafnvel þó að laun kunni að vera lægri, verður að telja skandal.

Menn geta velt því fyrir sér, hvaða öfl eru að verki, sem valda þessum yfirþyrmilega gistikostnaði hér, en hann  spillir meir og meir fyrir komu ferðamanna og stórskaðar ferðaþjónustuhagsmunina, sem eru okkar allra. Má ætla, að einhver þáttur þessar yfirkeyrslu kunni að vera vonin og viljinn um skjótfenginn hagnað, gróðafíkn.

Hvað, sem þessum ástæðunum líður, virðist ljóst, að íslenzkir hóteleigendur eru að verðleggja sig út úr kortinu, en, hér í lokin, má minna á, að orkukostnaður, sem líka er umtalsverður kostnaðarþáttur við hótelrekstur, er hér í lágmarki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Játning Bjarna – óhreinn og spilltur ríkisstjórnarflokkur

Orðið á götunni: Játning Bjarna – óhreinn og spilltur ríkisstjórnarflokkur
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Eiríkur Bergmann: Hvað gerist ef Trump tapar? – önnur árás á þinghúsið?

Eiríkur Bergmann: Hvað gerist ef Trump tapar? – önnur árás á þinghúsið?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Hver verður næsti formaður Sjálfstæðisflokksins? – Flokkurinn aldrei mælst lægri

Hver verður næsti formaður Sjálfstæðisflokksins? – Flokkurinn aldrei mælst lægri
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Tekjur Íslendinga 2023: Milliliðakóngarnir í landbúnaðinum maka krókinn – Alþingi rétti þeim ölmusu í vor

Tekjur Íslendinga 2023: Milliliðakóngarnir í landbúnaðinum maka krókinn – Alþingi rétti þeim ölmusu í vor