fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Eyjan

EFTA dómstóllinn: Bönkunum óheimilt að hækka vexti fasteignalána – skulda neytendum tugi milljarða

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 23. maí 2024 14:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

EFTA dómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenskum bönkum sé óheimilt að breyta vöxtum á lánum með breytilegum vöxtum á grundvelli þeirra lánaskilmála sem koma fram í skuldabréfum sem bankarnir hafa látið lántakendur undirrita.

Niðurstaðan er sú að til að heimilt sé að hækka vexti á lánum með breytilegum vöxtum þurfi að koma skýrt fram í skilmálum skuldabréfs á hverju breytingin (hækkunin) byggir. „Ekki aðeins skuli slíkur skilmáli vera formlega og málfræðilega skiljanlegur, heldur einnig gera hinum almenna neytanda, sem telst sæmilega vel upplýstur, athugull og forsjáll, kleift að skilja þá tilteknu aðferð sem beitt er við ákvörðun vaxtanna. Neytandinn þarf að vera í aðstöðu til að meta, út frá skýrum, hlutlægum og skiljanlegum viðmiðum, mögulega umtalsverðar afleiðingar slíks skilmála á fjárhagslegar skuldbindingar sínar.

EFTA dómstóllinn var að svara fyrirspurnum frá Héraðsdómi Reykjavíkur og Héraðsdómi Reykjaness vegna dómsmála sem lántakendur reka gegn Landsbankanum og Íslandsbanka.

„Um skilmála um breytilega vexti sem á reynir í málunum benti EFTA-dómstóllinn á að almennar vísanir til ófyrirséðrar mögulegrar hækkunar kostnaðar lánveitanda séu eðli málsins samkvæmt ósannreynanlegar fyrir hinn almenna neytanda. Með notkun slíkra þátta sé sæmilega forsjálum neytanda gert ókleift að átta sig á afleiðingum samningsskilmálans fyrir fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Var talið að orðalag eins og það sem birtist í skilmálunum sem til umfjöllunar eru í málunum, eins og „vextir á markaði“ og „breytingar á fjármögnunarkostnaði bankans“ sé ekki gagnsætt, jafnvel þótt það sé málfræðilega skýrt og skiljanlegt. Einnig mælir það gegn skýrleika samningsskilmálanna sem deilt er um að þeir hafi að geyma hugtakið „meðal annars“. Eðli málsins samkvæmt gerir hugtakið ráð fyrir að tekið sé tillit til viðmiða sem neytandi þekkir ekki til við gerð samningsins. Með fyrirvara um að landsdómstólar sannreyni efni þeirra, virðist líklegt að slíkir samningsskilmálar kunni að valda umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna milli samningsaðila.“

Þetta mun þýða að bönkunum er óheimilt að breyta einhliða vöxtum á lánum sem hafa breytilega vexti, og á það við nánast öll íslensk íbúðalán, verðtryggð og óverðtryggð, hvort sem vextir eru breytilegir eða festir til tiltekins tíma, sem er skemmri en lánstíminn. Samkvæmt upplýsingum frá Neytendasamtökunum eru hér undir íbúðalán upp á 2.700 milljarða. Samtökunum reiknast lauslega til að þessi niðurstaða EFTA dómstólsins þýði að varlega áætlað skuldi bankarnir íslenskum neytendum 50-90 milljarða.

EFTA dómstóllinn segir að það hlutverk innlendra dómstóla að ákveða hvaða skilmálar komi í staðinn ef lánssamningar geta ekki haldið gildi sínu eftir að búið er að ógilda þessa skilmála úr þeim. „Ef umræddir samningar geta hins vegar haldið gildi sínu án umræddra skilmála heimilar 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar þó ekki landsdómstólum að skipta hinum óréttmætu skilmálum út fyrir skilmála í samræmi við ákvæði landsréttar.“

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir þessa niðurstöðu fela í sér fullnaðarsigur, ippon, eins og hann kallar það, fyrir íslenska neytendur og segir það ánægjulegt að réttlætið hafi orðið ofan á. „Til hamingju Ísland,“ segir Breki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Brynjar Níelsson: Mistök að leyfa þjóðinni ekki að ákveða hvort hún vildi fara inn í Evrópusambandið – Viðreisn þurfti ekki að verða til

Brynjar Níelsson: Mistök að leyfa þjóðinni ekki að ákveða hvort hún vildi fara inn í Evrópusambandið – Viðreisn þurfti ekki að verða til
Eyjan
Fyrir 3 dögum

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“

Björn saknar Óla Björns – „Það munar misjafnlega mikið um framlag þeirra sem hverfa úr þingsölunum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“

Birgir segir að Þórður Snær sé réttkjörinn: „Þetta á sér ekki fordæmi svo ég viti til“