fbpx
Laugardagur 26.október 2024
Pressan

Linda fór að sinna fyrirsætuverkefni – Hún kom aldrei aftur heim

Pressan
Laugardaginn 15. júní 2024 22:00

Linda. Mynd:The Real Murders of Los Angeles

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á nákvæmlega sama tíma dag hvern, hringdi Linda Sobek, 27 ára, í Elaine móður sína til að spjalla. Þær bjuggu í Hermosa Beach í Kaliforníu og var samband þeirra mjög náið.

Þegar þær ræddu saman þann 16. nóvember 1995 sagði Linda, sem starfaði sem fyrirsæta og leikkona, móður sinni að hún væri að fara að sitja fyrir síðar um daginn en sagði ekki meira um hvar eða hjá hverjum.

Daginn eftir hringdi Linda ekki. Elaine reyndi að hringja í hana en hún svaraði ekki.

Elaine varð óróleg og hringdi í umboðsmann Lindu. Hann var ansi pirraður því Linda hafði ekki mætt í mikilvægustu áheyrnarprufu ferilsins, en hún fór fram um morguninn. Þetta var gestahlutverk í hinni vinsælu sjónvarpsþáttaröð „Married . . . With Children“.

Linda og Elaine. Mynd:The Real Murders of Los Angeles

 

 

 

 

 

 

 

Nú varð Elaine mjög áhyggjufull og óttaðist að eitthvað hefði komið fyrir Lindu.

Áhugi fjölmiðla ýtti við lögreglunni

Elaine hringdi í lögregluna og tilkynnti um hvarf Lindu en lögreglan hafði lítinn áhuga á málinu og bað hana um að halda ró sinni.

Linda hafði verið klappstýra hjá Los Angeles Raiders. Þegar félagið frétti að hún væri horfin sendi það út tilkynningu. Þar með fengu fjölmiðlar áhuga á málinu og laugardaginn 18. nóvember var fjallað um hvarf hennar á forsíðu dagblaða um öll Bandaríkin. Þessi mikli áhugi fjölmiðla þvingaði lögregluna til að taka málið alvarlega.

Linda var klappstýra. Mynd:The Real Murders of Los Angeles

 

 

 

 

 

 

Það var ekki á miklu að byggja en fyrsta skrefið var að finna út í hvaða verkefni Linda var að fara daginn sem hún hvarf.

Hún hélt nákvæma dagbók yfir allt sem hún gerði en dagbókin var ekki heima hjá henni þegar lögreglan leitaði þar.

Fimm dögum eftir að hún hvarf hringdi Bill Bartling í lögregluna. Hann sagðist hafa séð fjölda ljósmynda, sem virtust teknar af fagmanneskju, í ruslatunnu nærri Angeles þjóðgarðinum. Hann hafði séð myndir af Lindu í fréttum og bar því kennsl á hana og taldi það skyldu sína að láta lögregluna vita af myndunum.

Mynd af Lindu sem fannst í ruslagámi. Mynd:The Real Murders of Los Angeles

 

 

 

 

 

 

Lögreglan fékk hann til að vísa á ruslatunnuna en það var búið að tæma hana.

Lögreglan hafði því samband við sorphirðufyrirtækið til að fá upplýsingar um hvert var farið með ruslið. Leitað var í fjölda ruslagáma í von um að finna fleiri ljósmyndir og ekki síst eitthvað sem gæti komið lögreglunni á spor Lindu.

Ruslagámarnir sem leitað var í. Mynd:The Real Murders of Los Angeles

 

 

 

 

 

 

Þessi vinna bar að lokum árangur. Í einum gámi fann lögreglan fjölda ljósmynda af Lindu og dagbókina hennar. Búið var að rífa blaðsíðuna fyrir 16. nóvember úr henni. Einnig fannst leigusamningur fyrir Lexus-bíl. Hann vakti athygli lögreglunnar því Linda hafði setið fyrir í fjölda bílaauglýsinga. Leigusamningurinn var í nafni Charles Rathburn.

Ljósmyndarinn Charles

Lögreglan hringdi í Lexus-leigufyrirtækið og spurði hvort Charles Rathburn væri nafn sem hringdi bjöllum. Svo var, hann hafði leigt bíl í tengslum við myndatöku og hafði skilað honum 20. nóvember.

Því næst var hringt í Charles sem staðfesti að hann þekkti Lindu. Hann sagðist hafa hitt hana á veitingastaðnum Denny´s þann 16. nóvember, daginn sem hún hvarf.

Hann sagði að um atvinnuviðtal hafi verið að ræða. Hann hafi vantað fyrirsætu í tengslum við Lexus-ljósmyndatöku og vildi sjá hvort Linda væri rétta manneskjan í verkið. Hann sagði að Linda hafi gengið með honum út að bílnum. Þar sýndi hún honum ljósmyndamöppuna sína. Charles sagðist hafa ákveðið að Linda væri ekki rétta manneskjan í verkefnið og hafi hún þá stigið út úr bílnum og sest upp í sinn eigin bíl og ekið á brott.

Charles. Mynd:The Real Murders of Los Angeles

 

 

 

 

 

 

 

 

Hann var beðinn um að koma á lögreglustöðina klukkan 12.00 til frekari yfirheyrslu en hann mætti ekki. Þegar hringt var í hann bað hann um að yfirheyrslunni yrði frestað til klukkan 14.00 og bætti síðan við: „Ég reikna með að það sé mikilvægt fyrir ykkur að ræða við mig, þar sem ég er sá sem síðast sá Lindu“.  Lögreglumanninum brá við þessi orð hans því lögreglan hafði ekki sagt Charles að hann væri kannski sá sem sá Lindu síðast. Þetta styrkti grunsemdirnar um að Charles væri viðriðinn hvarf hennar.

Charles mætti ekki til yfirheyrslu klukkan 14.00 og í kjölfarið fluttist hann í efsta sætið á lista lögreglunnar yfir grunaða í málinu.

Lögreglan fór nú að Denny‘s veitingastaðnum þar sem Charles hafði hitt Lindu. Þar stóð bíllinn hennar á bílastæðinu. Hann var mjög rykugur og hafði greinilega ekki verið hreyfður dögum saman.

Fylgdust með Charles

Lögreglan byrjaði að fylgjast með heimili Charles í Hollywood. Eftir að hafa fylgst með heimili hans um hríð sáu lögreglumenn svolítið sem fékk þá til að gapa af undrun.

Charles stóð þá í innkeyrslunni og reifst af krafti við tvo menn. Hann dró síðan upp skammbyssu og skaut einu skoti í jörðina. Skotið endurkastaðist og lenti í handlegg annars mannanna.

Lögreglumenn, sem sátu í bíl rétt hjá, horfðu á þetta allt saman og brugðust skjótt við og handtóku Charles.

Hann var fluttur á lögreglustöð til yfirheyrslu. Hann var drukkinn og taugaóstyrkur.

Nú breytti hann frásögn sinni um fundinn með Lindu á Denny‘s. Hann sagði að eftir þau hittust hafi þau ekið saman út í Mojaveeyðimörkina í Lexusnum. Hann sagðist hafa tekið myndir af Lindu við bílinn. Hann sagði að síðan hafi hann ætlað að sýna Lindu svolítið með Lexusbílnum en fyrir slysni hafi hann ekið á hana og orðið henni að bana. Hann sagðist hafa reynt að bjarga lífi hennar og íhugað að aka með hana á sjúkrahús en hafi fyllst örvæntingu og grafið lík henna í eyðimörkinni.

Lögreglan lagði ekki trúnað á frásögn hans og skipaði honum að vísa henni á staðinn þar sem hann gróf Lindu. Eftir að hafa leitað að staðnum í sex klukkustundir úr þyrlu gafst lögreglan upp og grunaði sterklega að Charles vildi ekki vísa á lík Lindu.

Hann var fluttur aftur á lögreglustöð og síðan fyrir dómara sem úrskurðaði hann í gæsluvarðhald.

Lexusinn. Mynd:The Real Murders of Los Angeles

 

 

 

 

 

 

Lexusbíllinn var rannsakaður hátt og lágt en engin ummerki voru á honum sem bentu til að honum hefði verið ekið á einhvern.

Þegar húsleit var gerð heima hjá Charles fann lögreglan rúmlega 100 skotvopn og poka með fatnaði, límbandi og áfengi.

Daginn eftir var hringt úr gæsluvarðhaldsfangelsinu. Charles hafði reynt að svipta sig lífi. Á vegginn í klefa sínum hafði hann skrifað með blóði: „Ég er miður mín, ég ætlaði ekki að meiða neinn.“

Læknisrannsókn sýndi að Charles var aldrei í lífshættu og taldi lögreglan að sjálfsvígstilraunin hafi meðvitað verið misheppnuð í þeim tilgangi að vinna sér inn samúð.

Líkið fannst

Charles var yfirheyrður á sjúkrahúsinu og nú sagðist hann reiðubúinn til að aðstoða lögregluna við rannsóknina. Aftur var farið í þyrluflug yfir eyðimörkina og nú benti hann á stað þar sem líkið væri. Þyrlunni var lent og stórum steini var velt við, undir honum var lík Lindu.

Hér fannst lík Lindu. Mynd:The Real Murders of Los Angeles

 

 

 

 

 

 

Krufningin sýndi að engin ummerki voru um að ekið hefði verið á Lindu. Hún var með greinileg varnarsár og hún hafði verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Banamein hennar var kyrking.

Charles var dæmdur í ævilangt fangelsi og situr hann enn í fangelsi og mun væntanlega gera til æviloka.

Fjallað er um málið í heimildarmyndaþáttaröðinni The Real Murders of Los Angeles.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Jón Daði í Wrexham
Pressan
Fyrir 2 dögum

Rússneskir njósnarar sagðir hafa sent sprengjur flugleiðis til Bretlands og Þýskalands

Rússneskir njósnarar sagðir hafa sent sprengjur flugleiðis til Bretlands og Þýskalands
Pressan
Fyrir 2 dögum

Starfsmaður Walmart lést á voveiflegan hátt

Starfsmaður Walmart lést á voveiflegan hátt
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fyrirsæta opnar sig um atvikið sem gjörbreytti lífi hennar

Fyrirsæta opnar sig um atvikið sem gjörbreytti lífi hennar
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þingmaður öskraði á Karl Bretakonung- „Þetta er ekki landið þitt og þú ert ekki minn konungur“

Þingmaður öskraði á Karl Bretakonung- „Þetta er ekki landið þitt og þú ert ekki minn konungur“