fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Eyjan

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Lýðheilsa

Eyjan
Sunnudaginn 16. júní 2024 12:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lýðheilsa er þeim mjög hugleikin sem eru alfarið andsnúnir breytingum á núverandi fyrirkomulagi áfengissölu. Lýðheilsa er yfirgripsmikið fyrirbæri og er m.a. skilgreint þannig í Íslenskri orðabók: Almennt heilsufar í samfélagi, líkamlegt og andlegt, varðar allt frá frárennslismálum til menntunarmöguleika. Það var og. Minnist þess ekki að ráðamenn, einstaklingar og félagasamtök, sem eru á móti rýmkun á sölu áfengis, tali um mikilvægi lýðheilsu þegar verið er að ræða um biðlistana í heilbrigðiskerfinu, menntun ungmenna í ógöngum og frárennslismál sem eru víða í ólestri. Margt fleira mætti sjálfsagt tína til er varðar lýðheilsu, en helst að skilja að óheftur aðgangur að áfengi sé endalok lýðheilsu landsmanna. Minnir að svipaðar yfirlýsingar hafi verið uppi fyrir 35 árum, þegar bjór varð loks löglegur á Íslandi. Og hér erum við enn.

Þegar ég komst á áfengiskaupaaldur fyrir ríflega hálfri öld voru, að mig minnir, þrjár áfengisverslanir á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þar var opið til kl. 18:00 á föstudögum, lokað um helgar, mikil örtröð, og veigarnar afgreiddar yfir búðarborð af önugum ríkisstarfsmönnum. Engin leið að kynna sér takmarkað úrvalið í troðningnum og flestir gengu út með það sama í hvert skipti: Blue Nun hvítvín, Torres rauðvín og eina flösku af Brennivíni eða Vodka. Íbúar landsbyggðarinnar þurftu að panta sér veigarnar frá ÁTVR og biðu svo milli vonar og ótta hvort þær skiluðu sér með póstinum eða rútunni. Afmælisveislan í uppnámi ef það klikkaði. Heimabrugg blómstraði, hægt að kaupa smyglaðan bjór og ef í harðbakkann sló var hægt að panta „góðan“ leigubíl. Þetta var sko lýðheilsa í verki.

Nú eru 13 Vínbúðir á Stór-Reykjavíkursvæðinu og 44 Vínbúðir víðs vegar um landið, m.a.s. í Grímsey. Tekið hefur verið upp kjörbúðafyrirkomulag í flestum verslununum, starfsmönnum fjölgað og þjónustustig bætt til muna. Nú getur maður handleikið veigarnar og ráðfært sig við viðkunnanlegt starfsfólk um þrúgur og framleiðendur, svo dæmi séu tekin. Sumar Vínbúðir opnar til kl. 20:00 á virkum dögum, opið á laugardögum og jafnvel verið að huga að því að hafa opið á sunnudögum, að mér skilst. Þar að auki má finna á vef Vínbúðarinnar fróðleik um hinar ýmsu áfengistegundir og fólk hvatt til að neyta áfengis í hófi. Þess utan eru Vínbúðir víða staðsettar við hliðina á matvöruverslunum, gat í vegg og það eru komnar dyr á milli. Mætti halda að helstu talsmönnum lýðheilsu, sem virðast aldrei hafa búið, starfað eða ferðast erlendis, sé þetta fyrirkomulag alveg ókunnugt. Væri forvitnilegt að heyra hvernig þetta „takmarkaða aðgengi“ samræmist s.k. lýðheilsumarkmiðum,

Tillögur:

  1. Gefum áfengissölu frjálsa. Leysum upp ÁTVR og seljum Vínbúðirnar. Hef ekki áhyggjur af starfsmönnum á plani, þeir annaðhvort kaupa búð eða verða eftirsóttir starfsmenn nýrra eigenda. Ríkið hirðir þá bara áfengisgjaldið. Lýðheilsa í húfi?
  2. Óbreytt ástand. ÁTVR heldur áfram að opna Vínbúðir og rýmka opnunartíma. Áfengisgjaldið streymir áfram í ríkiskassann. Lýðheilsa í lagi?
  3. Tökum aftur upp hálfrar aldar gamla fyrirkomulagið. Minnkum vöruúrvalið og styttum jafnvel afgreiðslutímann enn frekar. Áfengisgjaldið skreppur saman, en við hækkum það bara. Lýðheilsu að mestu borgið?
  4. Bönnum sölu áfengis alfarið. Huga verður að nýjum gjaldstofni í stað áfengisgjaldsins. Sting upp á nefskatti, lýðheilsugjaldi, sem yrði innheimt með útvarpsgjaldinu. Lýðheilsu náð að fullu? (Biðlistarnir í heilbrigðiskerfinu eru þó enn jafn langir eða lengri og mennta- og frárennslismál og allt þar á milli enn í rúst.)

Ágætu þingmenn. Það er í góðu lagi að tala fyrir bindindi og einokunarsölu á áfengi, en forðist upphrópanir, órökstuddar fullyrðingar, gífuryrði og tilfinningasemi (þetta ætti reyndar að gilda um öll mál sem þið ræðið í þingsal) og þið ættuð e.t.v. að skilgreina betur hvað þið eigið við með „lýðheilsu“, áður en þið farið að brúka orðið ótæpilega. Hættið svo að tala til okkar eins og við séum almennt fáráðlingar sem kunnum ekki fótum okkar forráð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“