fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Danskir stjórnmálamenn vilja gera eins og Íslendingar hvað varðar sendiherrastöður – Embættismenn vara við því

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 17. mars 2021 05:22

Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í síðustu viku tilkynnti ríkisstjórn jafnaðarmanna í Danmörku að Kristian Jenssen, fyrrum varaformaður erkifjendanna í Venstre, hefði verið útnefndur sem sérstakur fulltrúi ríkisstjórnarinnar í baráttunni fyrir að Danmörk fái sæti í öryggisráði SÞ. Margir danskir stjórnmálamenn vilja halda áfram á sömu braut og koma stjórnmálamönnum í sendiherrastöður en embættismenn vara sterklega við slíku.

Það hefur lengi tíðkast hér á landi að stjórnmálamenn fái sendiherrastöður þegar þeir hætta afskiptum af stjórnmálum en slíkt fyrirkomulag hefur ekki verið í Danmörku. Þar hefur utanríkisþjónustan verið byggð upp á að hæfir embættismenn fái slíkar stöður. En nú vilja sumir danskir stjórnmálamenn gera breytingu á þessu.

Jótlandspósturinn hefur eftir Ulrik Federspiel, reyndum stjórnarerindreka, fyrrum ráðuneytisstjóra og sendiherra í Bandaríkjunum að það sé ekki snjallt að byrja að setja stjórnmálamenn í sendiherrastöður. Hann sagðist efast um að það muni auka áhrif Danmerkur að hafa stjórnmálamenn í sendiherrastöðum og að þeir muni fá réttar upplýsingar. „Byggt á rannsóknum og eiginn reynslu í 37 ár þá segi ég að ég tel að þeir geti þetta ekki. Erlend ríki hafa vanist því að danskir stjórnarerindrekar séu hlutlausir og ég hef sjálfur margoft upplifað að viðmælendur mínir hafa spurt hvort ég væri pólitískt útnefndur. Þegar ég sagði að svo væri ekki, treystu þeir mér betur og opnuðu pokann,“ sagði hann.

Michael Aastrup Jensen, talsmaður Venstre í utanríkismálum, er ekki sömu skoðunar og sagðist telja að það geti styrkt utanríkisþjónustuna að sendiherrar séu útnefndir á pólitískum grunni. „Að vera pólitískt útnefndir þýðir ekki endilega að um stjórnmálamann eigi að vera að ræða. Þetta getur líka verið einhver með mikla reynslu úr atvinnulífinu eða aðra reynslu. Það gæti styrk utanríkisþjónustuna,“ sagði hann og lagði áherslu á að slíkar útnefningar megi ekki vera „verðlaun eða vinargreiði“.

Innan utanríkisþjónustunnar hafa margir áhyggjur af stöðunni og þá sérstaklega í ljósi þess að um mitt næsta ár verða miklar hrókeringar á sendiherrum. Eftir að tilkynnt var að Kristian Jensen ætti að sjá um mál tengd baráttunni um sæti í öryggisráðinu sendu 643 starfsmenn utanríkisþjónustunnar bréf til Jeppe Kofod, utanríkisráðherra, og lýstu áhyggjum sínum af stöðunni. Svar hans róaði starfsmennina ekki mikið því hann sagði „á núverandi tímapunkti eru ekki uppi fyrirætlanir um aðrar útnefningar“.

Á næsta ári verður væntanlega skipt um sendiherra hjá NATO, í Rússlandi og hjá SÞ. Starfsfólk utanríkisráðuneytisins hefur áhyggjur af að stjórnmálamenn eða pólitískt útnefnt fólk fái stöður sem þessar, sem þykja meðal þeirra eftirsóknarverðustu, á meðan embættismenn verði sendir til Malí eða Afganistan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt