fbpx
Mánudagur 25.janúar 2021
Eyjan

Ekki fleiri monthús í miðbæinn

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 19. maí 2020 16:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rándýrar skrifstofubyggingar æðstu stofnana ríkisins eru á teikniborðinu en í pistli sínum Á þingpöllum sem birtist í helgarblaði DV spyr Björn Jón Bragason, sagn- og lögfræðingur, hvort virkileg þörf sé á svo umfangsmiklum framkvæmdum fyrir starfsmenn hins opinbera, þar á meðal þingmenn og ráðherra.

Þarf allt þetta húsnæði?

Nú þegar kreppir verulega að í efnahagslífinu blasir við að forgangsraða þarf verkefnum ríkis og sveitarfélaga. Meðal þess sem hlýtur þá að koma til skoðunar eru gríðarleg byggingaráform æðstu stofnana ríkisins. Þessar ráðagerðir eru raunar svo umfangsmiklar að þær hljóta að vekja áleitnar spurningar um meðferð almannafjár.

Viðbygging Alþingishússins mun líta svona út.

Nú stendur fyrir dyrum bygging sex þúsund fermetra skrifstofuhúss Alþingis við Vonarstræti. Gert er ráð fyrir að það verði tekið í gagnið 2023 en samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslu ríkisins er áætlaður kostnaður 4,4 milljarðar króna. Alþingi hefur fram til þessa leigt húsnæði undir hluta starfsemi sinnar og dreifast þær skrifstofur á nokkur hús en fyrirhuguð nýbygging á að hýsa skrifstofur þingmanna, fundarherbergi þingflokka og nefnda og vinnuaðstöðu starfsfólks og þingflokka. Þar með á öll starfsemi Alþingis að verða samtengd.

Í kynningarefni um fyrirhugaða byggingu koma fram hástemmdar yfirlýsingar eins og „bætt starfsaðstaða“, „langþráð úrbót“, „löngu tímabær“, „standast kröfur tímans“ og þar fram eftir götunum. Hér er þó rétt að staldra við og spyrja hvort þörf sé á öllu þessu húsnæði. Geta þingmenn einstakra flokka ekki deilt með sér vinnurými eins og almennt tíðkast á skrifstofum einkafyrirtækja?

 

Var virkilega ástæða til að ráða alls 27 pólitíska aðstoðarmenn þingflokka? Er ekki möguleiki á að spara á fleiri stöðum í skrifstofuhaldi þingsins? Lítið sem ekkert hefur farið fyrir spurningum af þessu tagi. Helsta gagnrýnin á fyrirhugaða byggingu hefur lotið að ytra útliti hennar, en frægt varð þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, gerði sjálfur útlitsteikningar af húsi á þessum stað í nýklassískum stíl.

 

Tugþúsundir fermetra

Tillaga T.ark arkitekta ehf. og SP(R)INT Studio að skipulagi svokallaðs Stjórnarráðsreits. Harpa er fjærst og Þjóðleikhúsið fremst á myndinni vinstra megin.

Einnig eru uppi áform um umfangsmiklar framkvæmdir á svokölluðum Stjórnarráðsreit, austan við Arnarhól og norðan Þjóðleikhússins, en nýverið fór fram hönnunarsamkeppni um það svæði. Þarna eru nú þegar miklar skrifstofubyggingar ríkisins, Arnarhvoll, Sjávarútvegshúsið og fleiri mannvirki, samtals 28.473 fermetrar. Gert er ráð fyrir því að fyrirhugaðar byggingar verði 23.937 fermetrar samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslunni. Við bætast 21.420 fermetrar í bílageymslum með 849 bílastæðum. Þá hefur komið til tals að reisa 1.672 fermetra dómshús Landsréttar á sömu slóðum. Enn má spyrja hvort ekki séu tækifæri til hagræðingar í skrifstofuhaldi ráðuneyta sem gætu þá komist af með minna húsnæði.

Menningarsögulegt slys

Samhliða samkeppni um skipulag á Stjórnarráðsreitnum var efnt til keppni um hönnun viðbyggingar við Stjórnarráðshúsið. Hér meðfylgjandi eru útlitsteikningar af henni. Um er að ræða um 1.200 fermetra mannvirki sem á að hýsa meðal annars flestar skrifstofur forsætisráðuneytisins, fundarými og aðstöðu fjölmiðla. Í samkeppnislýsingu um viðbygginguna sagði orðrétt: „Byggja þarf viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið í Lækjargötu…“ Þessi fullyrðing stenst einfaldlega ekki: Það þarf ekki að byggja við Stjórnarráðshúsið. Húsinu má halda óbreyttu á sínum stað og flytja skrifstofur forseta Íslands þangað, eins og áður hefur verið bent á. Skrifstofur forsætisráðuneytisins gætu þá flust í Safnahúsið við Hverfisgötu og gefið því húsi nýtt og verðugt hlutverk. Stjórnarráðið er eitt af elstu steinhúsum landsins, reist á árunum 1765–1770 sem fangelsi. Danir gátu ekki lengur leyft sér þann munað að starfrækja tukthús fyrir Íslendinga eftir árás Englendinga á Kaupmannahöfn (og fleiri ófarir í Napólensstyrjöldunum þegar ríkissjóður Dana varð gjaldþrota), svo húsinu var breytt í embættisbústað æðsta fulltrúa dansks valds hér á landi og síðar skrifstofur Stjórnarráðs Íslands frá stofnun þess 1904. Því má velta upp hvort menningarsögulegt slys sé hér í uppsiglingu. Hvers vegna vilja menn troða svo miklu byggingarmagni á jafnlítinn reit á viðkvæmum stað? Í næsta nágrenni má sjá hörmuleg dæmi um mislukkaðar viðbyggingar við gömul hús. Nægir að nefna hæðirnar fjórar ofan á gamla Útvegsbankanum og funkishliðina á Landsbankanum sem snýr út að Pósthússtræti. Stjórnarráðshúsið er þó enn eldri bygging og hefur mun meira sögulegt gildi en bankahúsin tvö.

Verðlaunatillaga að viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið, en til stendur að stórri byggingu verði komið fyrir á þröngri lóðinni aftan við húsið. Sú hugmynd hefur komið fram að flytja skrifstofur forseta Íslands í Stjórnarráðshúsið.

 Minnisvarðar utan um kontóra

Almennt fara opinberar framkvæmdir langt fram úr kostnaðaráætlunum. Hafist var handa við byggingu Ráðhúss Reykjavíkur undir þeim formerkjum að það myndi kosta 750 milljónir króna. Það var árið 1987, en talan endaði í þremur og hálfum milljarði á verðlagi ársins 1992 þegar framkvæmdum lauk. Það jafngildir nú næstum 14 milljörðum ef tekið er mið af vísitölu byggingarkostnaðar. Margir urðu til að gagnrýna slíka óráðsíðu með peninga skattborgara, sér í lagi þar sem aðeins lítill hluti skrifstofa borgarinnar var fundinn staður í Ráðhúsinu. Ellert B. Schram, ritstjóri DV, sagði til að mynda í forystugrein blaðsins á þessum tíma: „Ráðhúsið er kontór. Það hlýtur að vera áleitin spurning hvort reisa þurfi minnisvarða utan um þessa kontóra og kosta til þess þremur og hálfum milljarði og kannski meiru.“ Á einkamarkaðnum hefur á síðustu árum víða verið unnið að betri nýtingu skrifstofuhúsnæðis og mikil hagræðing átt sér stað. Í þessu efni ætti ríkisvaldið að taka sér einkafyrirtækin til fyrirmyndar. Við þurfum síst af öllu fleiri monthús í gamla bæinn, minnismerki um sóun og flottræfilshátt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þung orð falla vegna brotthvarfs Ágústs Ólafs af lista – „Andstyggilegustu erjurnar í pólitík og mest mannskemmandi“

Þung orð falla vegna brotthvarfs Ágústs Ólafs af lista – „Andstyggilegustu erjurnar í pólitík og mest mannskemmandi“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

ASÍ mótmælir bankasölunni – „Ákall um sölu banka kemur ekki frá almenningi“

ASÍ mótmælir bankasölunni – „Ákall um sölu banka kemur ekki frá almenningi“