fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Seðlabankinn lækkar vexti enn frekar

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 5. febrúar 2020 09:08

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri - Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 2,75% samkvæmt tilkyningu frá Seðlabankanum.

Vísbendingar eru um að hagvöxtur í fyrra hafi verið heldur meiri en áður var talið en horfur fyrir þetta og næsta ár versna samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í febrúarhefti Peningamála. Þar er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði einungis 0,8% í ár en í nóvemberspá bankans var búist við 1,6% vexti. Lakari horfur má fyrst og fremst rekja til erfiðari stöðu útflutningsatvinnugreina og versnandi fjármögnunarskilyrða innlendra fyrirtækja.

Verðbólga minnkaði hratt er leið á síðasta ár og var komin í verðbólgumarkmið á síðasta fjórðungi ársins. Hún hélt áfram að minnka í janúar og var 1,7% sem er minnsta verðbólga sem mælst hefur síðan haustið 2017. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað og er nú við verðbólgumarkmið eins og flestir mælikvarðar á verðbólguvæntingar. Samkvæmt nýrri spá Seðlabankans verður verðbólga minni en spáð var í nóvember og verður undir markmiði á meginhluta spátímans.

Taumhald peningastefnunnar, eins og það er mælt með raunvöxtum bankans, hefur því heldur aukist frá síðasta fundi nefndarinnar. Hækkun vaxtaálags á lánsfjármögnun fyrirtækja hefur aukið taumhaldið enn frekar.

Traustari kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmið hefur gert peningastefnunni kleift að bregðast við versnandi efnahagshorfum. Verkefni hennar er að tryggja verðstöðugleika til meðallangs tíma en jafnframt að beita því svigrúmi sem hún hefur til að styðja við eðlilega nýtingu framleiðsluþátta.

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.

Vextir verða því sem hér segir:

1. Daglán 4,50%.
2. Lán gegn veði til 7 daga 3,50%.
3. Innlán bundin í 7 daga 2,75%.
4. Viðskiptareikningar 2,50%.
5. Bindiskyldar innstæður, meðaltalsuppfyllt, 2,50%.
6. Bindiskyldar innstæður, föst bindiskylda, 0,00%.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt