fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Tap „gulldrengjanna“ í GAMMA vekur athygli – „Var þetta svikamylla?“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 2. október 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, deilir færslu Marinós G. Njálssonar samfélagsrýnis um fjárfestingafélagið GAMMA, vegna frétta af sjóðum félagsins, hvers eigið fé nánast þurrkaðist út á einu ári. Segist Ragnar taka undir orð Marinós, sem ýjar að því að eitthvað misjafnt hafi átt sér stað við stýringu sjóðanna:

„Vöxtur GAMMA (sem hefur verið nánast ævintýralegur) var sem sagt dæmigerð bóla áhættufjárfesta sem var við það að springa.“ Það er nefnilega málið eða var þetta svikamylla? Þó ég sé ekki að væna GAMMA menn um að standa undir nafni og vera gammar, þá er með ólíkindum hve margir sjóðir fyrirtækisins hafa hrunið að verðgildi síðustu 2 ár. Hvað réð verðgildi þeirra? Hvernig stendur á því að tveir fasteignasjóðir sem metnir voru með milljarða á milljarða ofan í eigið fé, voru með nánast 0 kr. í eigið fé, ef þeir náðu því þá, nokkrum mánuðum síðar? Er maðkur í mysunni og voru sjóðirnir ranglega skráðir með þetta eigið fé í þeirri von að skútan rétti sig við?“

Á öðrum stað segir Marinó:

„Eina vitræna skýringin er að þessir 4,4 ma.kr. hafi verið froða, tilbúningur, blekking eða hvaða orð það er annað sem fólk vill nota. Það er útilokað að sjóður sem auglýstur er sem góður ávöxtunarkostur um áramót („Góð ávöxtun sjóðs­ins á rætur að rekja til vel tíma­settra fjár­fest­inga og ágætrar fram­vindu í þró­un, fram­kvæmdum og sölu á vegum sjóðs­ins“), hafi farið í að vera með allt niður um sig í september.“

Þá spyr Marinó hvers vegna Fjármálaeftirlitið hafi ekki tekið í taumana:

„Af hverju er Kauphöllin ekki búin að stöðva viðskipti með þessa sjóði? Af hverju heyrist ekkert frá FME?“

Sjálfur hefur Ragnar Þór kallað eftir rannsókn á málinu og spyr einnig hvort stórfyrirtæki í eigu lífeyrissjóðanna ætli ekki að kanna réttarstöðu sína:

„Það verður áhugavert að sjá hvort stjórnarmenn og forstjórar Sjóvá og TM, sem eru að stórum hluta í eigu lífeyrissjóðanna, leggi fram kæru vegna málsins eða beiti sér fyrir því að opinberir eftirlitsaðilar rannsaki málið. Ef það gerist ekki hljóta lífeyrissjóðirnir að beita sér fyrir því að breytingar verði gerðar innan stjórna félaganna og fá þar inn hæfara fólk sem er starfi sínu vaxið.“

Grafalvarlegt mál

Tryggingamiðstöðin átti hlutdeildarskírteini í sjóði GAMMA og tók einnig þátt í skuldabréfaútboði Upphafs, sem er í eigu sjóðs GAMMA. Sigurður Viðarsson, forstjóri TM sagði við Morgunblaðið í vikunni að staða sjóðsins hafi verið fegruð, stöðunni hefði verið lýst með allt öðrum hætti í maí þegar útboðið átti sér stað og gaf því í skyn að eitthvað misjafnt hefði átt sér stað.

„Þetta er náttúrlega grafalvarlegt mál að menn sem eru að selja sig út sem sérfræðingar á þessu sviði halda ekki betur á spöðunum en þetta. Ég myndi halda að skuldabréfaeigendur myndu allavega vilja skoða málið vel.“

Gulldrengirnir

Marinó nefnir að GAMMA hafi gengið vel í byrjun og nánast allt sem fyrirtækið snerti hafi breyst í gull. En fallið þarfnist frekari skýringa við, sem hann eigi ekki endilega von á:

„GAMMA var fyrirtæki sem menn annað hvort dáðust að eða höfðu óbeit á. Fyrri hópurinn leit á GAMMA sem hóp gulldrengja sem höfðu þann eiginleika, að allt sem þeir snertu breyttist í gull. Það leit lengi vel þannig út. Ég veit ekki hvort menn ofmetnuðust, en fyrir líklegast tveimur árum fór að halla undan fæti. Seinni hópurinn leit á þá sem gamma, sem hugsuðu bara um að græða á daginn og grilla á kvöldin./

„En aftur að gulldrengjunum. Fjármálasnillingum hins nýja Íslands. Jæja, þar fór um sjóferð þá eða var það himnaför, svo hátt risu þeir. Hverju ætli verði kennt um núna? Krónunni? Barnaskap? Glópagulli sem þeir létu blekkjast af? Það er ekki nóg að segja, að framkvæmdakostnaður hafi bara allt í einu farið fram úr áætlunum eða verðþróun hafi ekki verið sú sem ætluð var. Það er ekki eins og það hafi verið óðaverðbólga og efnahagsöngþveiti. Ég bíð eftir trúverðugum skýringum, en á ekki von á því að þær komi.“

Sjá einnig: Eigið fé sjóðs í eigu Gamma úr 4.4 milljörðum í 40 milljónir á einu ári og forstjórinn hættir

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt