fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Rútubílstjórar sakaðir um þrifaleti og plastmengun – „Þetta er náttúrulega helbert kjaftæði“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 4. júní 2019 16:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgi Björnsson, áfengis- og vímuefnaráðgjafi, var á dögunum í Námaskarði við Mývatn að njóta náttúrunnar þegar honum blöskraði sóðaskapurinn af skóhlífanotkun ferðamanna sem komu með rútum frá Grayline. Sá hann að einhverjir hefðu skilið bláar plastskóhlífarnar eftir á víðavangi og undraðist að bílstjórar krefðust þess að ferðamenn klæddust þeim, enda þurrt og gott veður og mikil umræða verið um plastmengun og skaðsemi hennar undanfarin misseri.

Tók hann því myndir af öllu saman og birti í Facebookhópnum Bakland ferðaþjónustunnar, sem telur yfir 14 þúsund manns.

Þar var hinsvegar færslu Helga eytt út:

„Þetta er með ólíkindum. Ég póstaði þessu inn á Bakland ferðaþjónustunnar en færslunni var kastað út innan við 3 mínútum eftir að hún birtist. Harðlínu ritskoðun þar,“

segir Helgi, sem birti færsluna einnig í öðrum Facebookhópi, er nefnist Plokk á Íslandi, en það er hópur fólks sem týnir plastrusl á víðavangi.

Í athugasemdakerfinu er talað um leti hjá bílstjórum við að ryksuga rútur sínar og þess vegna séu þessar plasthlífar notaðar, sem sé skrítið, því þennan sama dag hafi verið þurrt veður og engin drulla.

Helbert kjaftæði

Þórir Garðarsson, talsmaður Grayline, segir málið allt á misskilningi byggt:

„Þetta er náttúrulega helbert kjaftæði. Bílstjórar okkar láta farþega fá þessar skóhlífar til að hlífa skóm þeirra við leirdrullunni þar sem getur eyðilagt skó. Þá tryggja þeir einnig að skóhlífunum sé skilað þegar farþegar fara aftur í rútuna. Ef þær eru ónýtar eftir notkunina er þeim fargað með viðeigandi hætti, þar sem fyrirtækið flokkar allt sorp,“

segir Þórir og telur að skóhlífarnar á myndunum hjá Helga séu ekki frá sama degi og myndirnar séu teknar og séu því ekki frá rútum Grayline:

„Við skoðun á myndunum sést að skóhlífarnar eru rykugar og skítugar, líkt og búið sé að rigna á þær. Þetta er greinilega plast sem er búið að vera þarna í nokkra daga og kemur ekki frá okkur. Auðvitað ganga allt of margir illa um landið okkar, en við stoppum ekki framleiðslu á Coca Cola þó við sjáum plastflösku á víðavangi. Það þarf að leysa vandamálið með öðrum hætti.“

Þórir vísar því á bug að bílstjórar þeirra nenni ekki að ryksuga skódrullu eftir ferðamenn:

„Þarna kemur í ljós vanþekking manna á aðstæðum. Þetta snýst ekki um bílana og umgengnina þar, heldur um skófatnaðinn. Leirdrullan þarna getur skemmt skó. Sumir ferðaþjónustuaðilar tíma ekki að láta sína viðskiptavini fá slíkar skóhlífar, en við gerum það og með ábyrgum hætti eins og ég sagði áðan.“

Einars þáttur Bárðarsonar

Einar Bárðarson, athafnamaður og fyrrverandi starfsmaður Kynnisferða, deilir einnig myndunum frá Helga á Facebooksíðu sinni. Þar segir Einar:

„Muniði þegar fólk sagði hreinn bíll .. skítt með landið og hentu draslinu út um gluggann.“

Þórir segir að þessi ummæli Einars hafi hleypt illu blóði í rútubilstjóra sína:

„Það kom fram hjá Einari Bárðarsyni að bílstjórar okkar væru að henda plastinu út um gluggann og það hleypti illu blóði í okkar menn að slíkar sakir væru bornar á þá af manni sem á að vita betur. Það skal ekki úr því dregið að plast er mjög slæmt fyrir umhverfið og einmitt þess vegna eru okkar bílstjórar mjög samviskusamir við að innheimta skóhlífarnar af farþegum sínum. Þess vegna sárnaði þeim þessi ummæli frá Einari,“

sagði Þórir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt