Þjóðskjalasafn Íslands spurði á Facebook í dag hvort fólk muni eftir Tívolíinu í Hveragerði og stóð þá ekki á svörum. Hvort fólk man.
Tívolíið var í fjölmörg sumur vinsæll áfangastaður fjölskyldna en það var opnað árið 1985 og rekið til ársins 1993. Árið 1987 var svo byggt yfir tívolíið stór bygging með límtrésbitum og plastklæðiningu. Alls var rýmið 6 þúsund fermetrar að stærð.
Mátti í tívolíinu finna ýmis tæki svo sem klessubíla, slöngubáta, skotbakka, kolkrabba, þeytivindu og gokart-bíla svo dæmi séu tekin.
Á sínum tíma sagði hæstaréttarlögmaðurinn Ólafur H. Ragnarsson sem lengst af sá um rekstur tívolísins í samtali við Pressuna að ætlunin hafi verið að útbúa skemmtilegan stað þar sem fjölskyldur gætu átt gæðastundir saman. Margir hafi rekið upp stór augu þegar heyrðist af ætlun hans um að koma upp þessum rekstri á sínum tíma en hann hafi haft ævintýraþrá og löngun til að prófa nýja hluti.
Þegar breskt farand-tívolí fór að leggja leið sína til Íslands á tíunda áratugnum fór að halla undan fæti. En engu að síður eiga margir góðar minningar frá Tívolíinu á Hveragerði.
Sigurður Kárason, einn eigenda Kauplands sl. sem ákvað í sameiningu með Eden í Hveragerði að opna tívolíið á sínum tíma, sagði í samtali við DV árið 1985:
„Við hyggjumst reisa þarna skemmtigarð þar sem ungir og aldnir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Tækin sem notuð voru í tívoíinu á Melavellinum í fyrra, eru í okkar eigu og byrjum við á að koma þeim upp. Þetta eru klessubílar, kolkrabbi, „round–up„, hringekjur, bátar og fleira.“
Hann bætti við að hann hefði fulla trú á að tívolíið myndi falla í kramið hjá landsmönnum. „Okkur finnst ófært að fólk skuli þurfa að fara alla leið til Kaupmannahafnar til þess að komast í tívolí“
Í Æskunni árið 1993 sagði um ferð í tívolíið:
„Þegar ég kom í Tívolíið í sumarbyrjun var allt að komast á fulla ferð. Þó var Parísarhjólið ekki farið að snúast (það átti að setja af stað fjórum dögum síðar). Engu að síður tylltu tvær ungar stúlkur sér í sætin – eins og til að venjast þeim. Eflaust koma þær aftur með fjörmiklum flokki sem reynir öll tækin og hvíar og hrópar og húrrar! Þá verða þar líka pabbar og mömmur og afar og ömmur og segjast verða að gera það fyrir börnin að setjast með þeim í bílana og svífa með þeim í kolkrabbanum. Já auðvitað fyrir börnin! – en stundum enn frekar fyrir börnin í sjálfum sér en þau sem leidd eru við hönd.“
Einhverjar áhyggjur höfðu íbúar í Hveragerði áður en tívolíið opnaði um að hávaði frá því yrði of mikinn. Þeir höfðu þó skipt um skoðun árið 1988 þegar í umfjöllun DV um deilur milli eigenda þess sagði að heimamenn sem rætt hafði verið við væru á einu máli um að fyrir Hveragerði væri tívolíið þýðingarmikið. Það drægi að ferðamenn og skapaði atvinnu fyrir vel á þriðja tug manna.
Hér fyrir neðan má sjá ljósmyndir sem Þjóðskjalasafnið birti og ekki laust við að það veki smá nostalgíu.