fbpx
Laugardagur 05.júlí 2025
Fréttir

Allt um eldgosið við Fagradalsfjall – Fréttir – Myndir – Viðtöl

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 19. mars 2021 21:54

Eldgos í Fargadalsfjalli. Aðsend mynd frá Njarðvík.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eldgos er hafið við Fagradalsfjall. Fluglitakóði er rauður en mjög lítill órói sést á jarðskjálftamælum. Flug gæslunnar fer í loftið innan skamms, segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, samskiptastjóra Almannavarna, sem DV ræddi við, eru starfsmenn Almannavarna á leið niður í Samhæfingarmiðstöðina í Skógarhlíð til að kanna stöðuna. Hún getur ekkert sagt um það á þessu stigi hvort gosið virðist stórt eða ekki. Það eru eindregin tilmæli Almannavarna að almenningur haldi sig frá gossvæðinu og sé ekki á ferðinni á Reykjanesbrautinni að óþörfu.

Samkvæmt heimildum er þung umferð á Reykjanesbrautinni og er óttast að almenningur stefni í átt að gosinu. Fólk er beðið um að halda sig fjarri og gefa vísindamönnum ráðrúm til að meta stöðuna.

Fréttin er uppfærð reglulega og hvetjum við lesendur til að fylgjast með nýjustu tíðindum sem birtast reglulega hér fyrir neðan. 

Uppfært kl. 21:26

Reykjanesbraut hefur nú verið lokað fyrir umferð. Ekki er vitað hvað lengi brautin verður lokuð.

Uppfært kl. 22:30

Hér eru myndir af gosinu í Fagradalsfjalli sem lesandi tók úr nokkurri fjarlægð:

Uppfært kl. 20:40

Að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, samskiptastjóra Almannavarna, í samtali við DV, er gosið fjarri mannabyggð og stafar ekki hætta af því fyrir íbúa á Suðurnesjum. Fólk er hvatt til að halda sig heima, sérstaklega til að valda ekki truflunum fyrir viðbragðsaðila og vísindamenn.

Uppfært kl: 20:47

Gosið sést mjög vel í Keflavík. Íbúar í Grindavík hafa talað um að flýja bæinn en það mun vera ástæðulaus ótti. Staðfest er samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum að mannabyggð stafar ekki hætta af gosinu.

Uppfært kl. 23:10: „Þetta er það sem Grindvíkingar hafa beðið eftir“

 

Björn Birgisson

Björn Birgisson er þekktur íbúi í Grindavík sem býr í Eyjahverfinu þar, sem er vestarlega og fremur neðarlega í bænum. Hann telur Grindvíkinga almennt vera rólega yfir gosinu. Þrátt fyrir að Fagradalsfjall sé nokkuð nálægt Grindavík sést gosið ekki úr gluggunum hjá Birni því fjöll á milli byrgja sýn, þó að þau séu ekki há. „Ég ók hérna austur fyrir bæinn og þá sá maður bjarmann afskaplega vel. En hann sést miklu betur að norðanverðu, þ.e.a.s frá Reykjanesbraut,“ segir Björn. Bjarminn af gosinu sést því betur frá Reykjanesbrautinni en frá Grindavík.

„Það var mín ósk að fá þetta gos upp og semja við náttúruna um að hún hætti skjálftunum, að það losnaði þessi þrýstingur. Hvort það verður, það veit ég ekki,“ segir Björn sem vonast til þess að ekki gjósi annars staðar líka. Sem stendur virðast eldsumbrotin bundin við Fagradalsfjall.

Uppfært kl. 23:10 – Fyrsta ljósmynd Veðurstofunnar af gosinu

Gos í Fagradalsfjalli. Veðurstofan

Þess mynd birti Veðurstofan á Facebook-síðu sinni rétt í þessu. Er þetta fyrsta mynd Veðurstofunnar af gosinu. Í færslunni segir:

„Fyrsta mynd af gosinu. Tekin úr þyrlu Landhelgisgæslunnar. Syðri endi tungunnar er um 2,6 km frá Suðurstrandarvegi. Miðað við fyrstu upplýsingar er sprungan um 200 m löng.“

Uppfært kl. 22:15 – Gosið er ekki stórt

Samkvæmt Fréttavakt RÚV er gosið ekki stórt. Gosið er hins vegar talið hættulegt og þeir sem eru veikir í öndunarfæum  ættu að huga vel að heilsu sinni og fylgjast með tilkynningum frá Almannavörnum og umfram allt halda sig fjarri.

Syðri endi hrauntungunnar sem rennur úr spurngunni er um 2,6 kílómetra frá Suðurstrandarvegi. Sprungan er um 200 metra löng. Að sögn jarðeðlisfræðings sem ræddi við RÚV er gosið lítið.

Uppfært kl. 22:25

Gossprungan er lengri en talið var. Hún var talin vera 200 metrar en hún er 500 metra, samkvæmt aukafréttatíma RÚV.

Uppfært kl. 22:31

Gunnar Már Yngvason

Gunnar Már Yngvason er áhugaljósmyndari í Keflavík. Hann rauk af stað með ljósmyndagræjurnar þegar hann frétti af gosinu.

„Ég brenndi upp á Stapa og ég sjá bjarmann greinilega alla leiðina. Svo stoppaði ég rétt hjá Grindavíkurafleggjaranum og ætlaði að taka myndir en þá var bara bjarminn dottinn niður. En þetta sást allan tímann meðan ég var að keyra upp Stapann. Þaðan var þetta hinum megin við Fagradalsfjallið.“

Þar sem bjarminn var dottinn niður þaðan sem Gunnar var við Grindavíkurafleggjarann þá tók hann engar myndir og bíða þær betri tíma. Hann segir að gosbjarminn sjáist ekki frá Keflavík, a.m.k. ekki þar sem hann býr, í Miðgarði.

Gosið leggst vel í Gunnar, sem er spenntur fyrir náttúruhamförum. „Ég er ekki hræddur við þetta.“

„Þegar ég sá hvað það var svakalega traffík á Grindavíkurveginum ákvað ég að fara ekki lengra og sneri bara við,“ segir Gunnar ennfremur.

Uppfært kl. 22:45

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, sagði við RÚV að gosið virðist vera lítið og hraun renni ekki langt frá upptökunum. Fyrstu spár benda til að það muni ekki ná niður að sjó. Byggð eða mannvirki eru ekki í hættu. Fólk er hins vegar beðið um að halda sig fjarri gosinu vegna hættu á gasmengun. Fólk í byggðum nálægt Fagradalsfjalli er hvatt til að hafa glugga lokaða.

Vegir að gosinu eru lokaðir, Krýsuvíkurvegur og Suðurstrandarvegur. Drónaflugsbann er á svæðinu vegna þyrlunotkunar. Gildir það að minnsta kosti til hádegis á laugardag.

Keflavíkurflugvöllur er opinn eins og vanalega og ekki er óttast að gosið muni valda truflunum á flugumferð. Ekkert bendir til að þetta gos verið neitt í líkingu við Eyjafjallajökulsgosið árið 2010 sem olli truflun á flugumferð á heimsvísu. Sagði Víðir að þetta gos væri pínulítil útgáfa af Holuhraunsgosinu 2014.

Uppfært kl. 00:20

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri Náttúruvárvöktunar Veðurstofunnar, sagði við RÚV að líklegt sé að Suðurnesjamenn megi eiga rólegri nætur í vændum en undanfarið, nú þegar farið er að gjósa, hvað jarðskálfta varðar. Mjög hafi dregið úr skjálftavirkni og líklegt sé að sú þróun haldi áfram.

Uppfært kl. 00:45

Veðurstofan fór yfir málið í stuttri tilkynningu til fjölmiðla eftir miðnætti:

„Eldgos hófst við Fagradalsfjall í Geldingadal, um kl. 20:45 í kvöld. Gosið er talið litið og gossprungan um 500-700 m að lengd. Hraunið er innan við 1 km2 að stærð. Lítil gosstrókavirkni er á svæðinu.

Landhelgisgæslan og vísindamenn hafa flogið yfir gosstöðvarnar.

Starfsfólk Veðurstofunnar ásamt björgunarsveitarmönnum eru farin á svæðið til gasmælinga.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Stefán æfur yfir Palestínufána og kallar Alexöndru kynskipting – „Við vitum hvernig stjórnvöld í Palestínu fara með hennar líka“

Stefán æfur yfir Palestínufána og kallar Alexöndru kynskipting – „Við vitum hvernig stjórnvöld í Palestínu fara með hennar líka“
Fréttir
Í gær

Ósáttur eftir langa bið og upplýsingaleysi á Keflavíkurflugvelli – „Mikið af eldra fólki og börnum í hópnum sem áttu í basli“

Ósáttur eftir langa bið og upplýsingaleysi á Keflavíkurflugvelli – „Mikið af eldra fólki og börnum í hópnum sem áttu í basli“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hallgrímskirkja önnur fallegasta í heimi

Hallgrímskirkja önnur fallegasta í heimi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bæjarfulltrúi kærði bæjarstjórn Kópavogs til kærunefndar – Gerði í raun athugasemd við sína eigin skipan í ráð

Bæjarfulltrúi kærði bæjarstjórn Kópavogs til kærunefndar – Gerði í raun athugasemd við sína eigin skipan í ráð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

P. Diddy aðeins sakfelldur í tveimur ákærulið af fimm – Vægur dómur talinn yfirvofandi

P. Diddy aðeins sakfelldur í tveimur ákærulið af fimm – Vægur dómur talinn yfirvofandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ása mátti ekki selja jeppa Rex á eBay – „Ef þú ert áhugamaður um glæpasögu þá eiga þessi jeppi og hjólhýsi sína sögu“

Ása mátti ekki selja jeppa Rex á eBay – „Ef þú ert áhugamaður um glæpasögu þá eiga þessi jeppi og hjólhýsi sína sögu“