
Berglind Björg Þorvaldsdóttir, leikmaður franska liðsins Le Havre hefur heldur betur fengið að kynnast þeim áhrifum sem Covid-19 hefur haft á heimsbyggðina.
Berglind var leikmaður ítalska AC Milan á síðasta tímabili og hafði ekki verið lengi í herbúðum liðsins þegar að útgöngubann var sett á Ítalíu.
Hún greindi síðan frá því, í viðtali sem birtist á Fotbolti.net í dag, að hafa greinst með Covid-19 í desember síðastliðnum. Hún var þá orðin leikmaður Le Havre í Frakklandi.
„Ég greinist með covid í byrjun desember og missi af PSG leiknum. Sem betur fer var jólafrí eftir þann leik svo ég hafði smá tíma til að jafna mig eftir veikindin. Ég næ svo að koma til Íslands 23. desember, fer svo út aftur tíu dögum seinna og þar tekur við tveggja vikna „undirbúningstímabil“. Ég var ekki búin að ná að æfa neitt eftir að ég greindist með covid og fer beint í það að æfa tvisvar á dag, sem fór alls ekki vel í líkamann,“
„Ég spila svo allan leikinn gegn Issy en byrja svo að versna í líkamanum strax eftir leikinn og var send á bráðamóttökuna. Ég fer svo í rannsóknir þar og myndatöku tveimur dögum seinna, þar kemur í ljós að ég var með vökva í kringum hjartað og lungun,“ sagði Berglind í viðtali hjá Fotbolti.net
Við tók síðan tíu daga lyfjakúr þar sem Berglindi var skipað að hreyfa sig ekki. Hún þurfti síðan á endurhæfingu að halda og það tók hana sex vikur að komast aftur út á knattspyrnuvöllinn.