Hún kennir okkur að lífið er ósanngjarnt á sama tíma og þar er hægt að finna ólýsanlega fegurð.
„Hún trúði alltaf á merki um líf eftir dauðann og lofaði að senda mér helling af þeim. Ég fann fyrir slíku innan við sólarhring eftir að hún skildi við. Ég finn alltaf fyrir henni nálægt mér, það er ekki möguleiki að ég gæti komist í gegnum þetta án hennar.“
Þetta sagði Spencer Hall, eftirlifandi eiginmaður Esterar Evu Gunnarsdóttur en minningarathöfn Esterar Evu fer fram í Bústaðakirkju klukkan 15 í dag. Margir minnast þessara merku ungu konu í minningargreinum í Morgunblaðinu.
Ester Eva Hall fæddist í Reykjavík 13. september 1988. Hún lést á Mount Auburn-spítala í Boston 2. júní 2017 eftir stutta en erfiða baráttu við magakrabbamein. Ester Eva fluttist til Bandaríkjanna 6 ára gömul með móður sinni og bjó þar í 22 ár. Þar lauk hún sínu grunnskólanámi árið 2007 í Newton, Massachusetts. Hún útskrifaðist sem iðnhönnuður úr Massachusetts College of Art and Design í maí 2016. Ester Eva starfaði fyrir samtökin Children International Dialogue Direct við að finna stuðningsfjölskyldur fyrir bágstödd börn úti í heimi. Einnig starfaði hún sem fyrirsæta í mörg ár fyrir Click Model Management og Model Club Inc.
Árið 2008 bjó Ester Eva um sex mánaða skeið á Íslandi og tók á þeim tíma þátt í ungfrú Reykjavík og ungfrú Ísland.
DV birti umfjöllun um Ester þann 13. Júní síðastliðinn. Ester Eva hafði ætlað að gifta sig þann 3. júní. Þegar ljóst var að litlar líkur væru á að Ester myndi lifa þann dag var brúðkaupinu flýtt. Hún giftist sínum heittelskaða, Spencer Hal, 30. maí, á spítalanum, þar sem hún hafði tekist á við veikindi sín. Hún vissi að hún væri að deyja og stutt væri í kveðjustund. Hún reyndi að hughreysta sína nánustu, blítt og með bros á vör, því þannig var Ester Eva, alltaf að hugsa um aðra. Hún lifði í 3 daga, sem gift kona.
Ester eignaðist tvö börn með sambýlismanni sínum Spencer Hall; Óðin Alexander sem er nú þriggja ára og Viktor Þór sem er níu mánaða. Ester Eva greindist með magakrabbamein á fjórða stigi þann 13. janúar á þessu ári. Aðeins fimm mánuðum síðar var hún látin. Synir Esterar og Spencers eru Óðinn Alexander, f. 11. desember 2013, og Viktor Þór, f. 19. ágúst 2016. Eftirlifandi eiginmaður hennar og synir eru búsettir í Boston.
Ester Eva barðist hetjulega fram á síðasta dag, fyrir drengina sína tvo, sambýlismann, fjölskyldu og vini.
Við getum lært margt af Ester. Hún kennir okkur að fara ekki í manngreiningarálit, að beita jákvæðni á erfiðum stundum. Hugsa um þá sem minna mega sín. Hrósa og brosa. Vera góð mamma. Hún kennir okkur að lífið er ósanngjarnt á sama tíma og þar er hægt að finna ólýsanlega fegurð. Hún kennir okkur að elska lífið. Og nýta tímann. Þetta er Ester. Við heiðrum minningu hennar með því að muna hana svona.
Rósella Mosty, móðir Esterar segir í minningargrein í Morgunblaðinu:
Elsku yndislega Ester Eva mín, hvernig á ég að trúa því að þú sért farin að eilífu og komir aldrei aftur? Ég efast um að ég eigi nokkurn tímann eftir að skilja að þú, einungis 28 ára gömul, tveggja barna móðir, nýgift í blóma lífsins hafir verið tekin frá okkur.
Ég á eftir að sakna þess að sjá ekki fallega brosið þitt, heyra ekki hlátur þinn. Við töluðum mikið saman um lífið og tilveruna, trúna og reyndum að skilja hvernig það gat verið að þú hefðir fengið krabbamein af öllum. Við grétum mikið saman og alltaf hughreystir þú mig. Trú þín var ótrúleg, þú trúðir á Guð og reyndir að hjálpa mér við að finna mína trú aftur sem ég missti eftir að þú greindist, þú trúðir því að þú myndir sigra þetta krabbamein því þú áttir svo margt eftir að gera í lífinu.
Þá segir Rósella á öðrum stað:
„Þú varst fyrirmynd systra þinna og alltaf til staðar fyrir þær. Ég vissi að þú yrðir frábær móðir þegar kæmi að þér. Einlægni þín og góðmennska einkenndu þig, þú máttir aldrei neitt aumt sjá, þér var umhugað um alla. Þú spjallaðir við fólkið í vegatollinum og spurðir út í daginn hjá þeim, þú talaðir við heimilislausa, þú sýndir öllum virðingu og skartaðir þínu fallega brosi til allra.“
Tanya líf systir Esterar segir:
Þú kenndir mér svo margt og áttir þinn þátt í að móta mig, gera að þeirri persónu sem ég er í dag. Þú kenndir mér að taka ekkert sem sjálfsagðan hlut þar sem að lífið er svo verðmætt. Þú kenndir mér að taka eftir smáatriðunum því þau skipta höfuðmáli. Ég leit alltaf upp til þín sem barn og langaði að vera eins og þú, ég klæddi mig í fötin þín og hlustaði á þína tónlist. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig, sérstaklega þegar mér fannst eins og allir væru búnir að gefast upp á mér. Ef ég datt þá komstu hlaupandi til mín, ef ég var eitthvað óviss um framtíð mína þá tókstu þér tíma til að spjalla og hughreysta mig, þegar það varst þú sem varst kvalin.
Mest af öllu sakna ég þín, hér hjá mér, verandi besta systirin sem þú varst. Ég sakna þín, elsku stóra systir mín, og „I love you to the moon and back, baby girl“ (ég elska þig út í geim og aftur heim, „baby girl“). Þín systir.
Sandra María frænka Esterar segir:
„Þú ert einstök, elsku Ester Eva mín. Það er enginn eins og þú og nú er stórt skarð höggvið í fjölskylduna okkar núna. Orð fá ekki lýst hversu mikið ég sakna þín. En minningarnar um þig munu lifa áfram í hjarta mínu og þær munu einnig lifa áfram í strákunum ykkar Spencers.“
Helga María fræna Esterar segir:
„Jákvæð og þolinmóð varstu með eindæmum og móðir jörð var þér mikilvæg. Þú varst svo mikið náttúrubarn. Þú varst svo ósérhlífin og hugsaðir alltaf meira um þarfir annarra á undan þínum. Þegar þú varðst veik í janúar tókstu því sem áskorun og að það væri tilgangur með því. Þú barðist hetjulega, elsku Ester Eva mín. Þegar ég talaði við þig viku áður en þú fórst þá varstu að segja mér hversu mikið þú hlakkaðir til að dansa brúðardansinn í brúðkaupi þínu, þú hlakkaðir svo til að dansa við son þinn, hann Óðin Alexander. Þó að það hafi ekki orðið raunin þá náðir þú að giftast æskuástinni þinni, besta vini og föður drengjanna þinna. Ég kom til Boston til að verða viðstödd brúðkaup þitt en því miður fór það ekki svo, ég náði ekki að kveðja þig, að kyssa þig og segja þér hversu falleg og dugleg þú værir. Ég trúi því að þeir sem guðirnir elska mest fari fyrr og það á svo sannarlega við um þig, elsku yndið mitt.“
Spencer eftirlifandi eiginmaður Esterar tjáði sig við DV í júní.
„Hún trúði alltaf á merki um líf eftir dauðann og lofaði að senda mér helling af þeim. Ég fann fyrir slíku innan við sólarhring eftir að hún skildi við. Ég finn alltaf fyrir henni nálægt mér, það er ekki möguleiki að ég gæti komist í gegnum þetta án hennar.“
„Við Ester náðum að eiga 10 ár saman og ég get varla lýst öllu sem ég lærði á þeim tíma, með því að umgangast hana, vera í kringum hana og sjá hvernig hún kom fram við fólkið í kringum sig. Hún var með ótrúlega stórt hjarta og vildi alltaf öllum svo vel. Hún sagði að allir ættu að fá sömu tækifæri. Hún gekk oft langt í því að láta fólkinu í kringum sig líða vel, jafnvel bláókunnugu fólki.“
Ester Eva var eftirsótt sem fyrirsæta og hefði getað haft góðar tekjur upp úr því.
„En hún kaus frekar að vinna að málefnum sem henni fannst skipta máli. Hún vann til dæmis í ár fyrir Children´s International, samtök sem hjálpa fátækum börnum í Suður Ameríku og Afríku. Þá stóð hún niðri í bæ og stoppaði vegfarendur og fékk þá til að gerast styrktaraðilar fyrir samtökin. Og henni gekk mjög vel í því. Hún vildi frekar gera það og fá einhverja tíu dollara á tímann í staðinn fyrir að vinna sem módel og fá rífandi tekjur.
Það var líka í takt við hana; hún var svo sannarlega ekki efnishyggjumanneskja, hún var svo nægjusöm og spáði líka mikið í nýtni og að endurnýta hlutina. Hún hafði mikinn áhuga á náttúrlegum og nægjusömum lífsstíl og spáði mikið í mætti líkamans og hvernig líkaminn getur læknað sjálfan sig. Hún fæddi báða drengina okkar án verkjalyfja og var mjög umhugað um náttúrulegar fæðingar og áhrifamátt þeirra. Hún vildi lifa nægjusamlegu og fallegu lífi.“
Ester Eva og Spencer kynntust þegar þau voru bæði að útskrifast úr menntaskóla, eða „high school.“
„Ég varð strax ástfanginn af henni, ég hafði aldrei kynnst manneskju eins og henni. Ég man eftir að hafa farið í partý fljótlega eftir að við byrjuðum að fara á stefnumót og sagði þá við einn vin minn hvað ég væri hrifinn af henni og hvað ég vildi ekki missa hana. Hann sagði mér að vera rólegur, ég ætti eftir að giftast henni einn daginn, hann bara vissi það.
Hún var búin að ákveða að flytja til pabba síns á Íslandi í hálft ár eftir útskrift þannig að þetta var svolítið óljóst hvernig þetta yrði hjá okkur. En svo kom hún til baka og þetta small allt saman. Ég held meira að segja að vikuna sem við giftum okkur hafi verið liðin nákvæmlega 10 ár síðan við byrjuðum saman.“
„Við vorum búin að trúlofa okkur áður en hún greindist með krabbamein en eins og svo margir aðrir vorum við á fullu að eiga börn og koma okkur fyrir í lífinu og frestuðum því alltaf að gifta okkur. Ætluðum alltaf að gera það seinna.“
Þegar Ester Eva og Spencer komust að því að ef til vill yrði ekkert „seinna“ ákváðu þau að flýta giftingunni. Þau vildu vera orðin eiginmaður og eiginkona áður en Ester Eva myndi skilja við heiminn.
„Fyrst var planið að hafa athöfnina í ágúst en eftir því sem á leið þá gátum við einfaldlega ekki verið viss um að Ester yrði enn þá hjá okkur. Þannig að við færðum dagsetninguna til 3. júní. Síðan var ljóst að við myndum þurfa að flýta giftingunni enn frekar. Við vorum bæði svo þakklát að það tókst.“
Athöfnin var innileg og falleg.
„Flestir grétu, þetta var svo mikil gleði og líka sorg á sama tíma. Ég mun aldrei gleyma svipnum á henni, þegar hún kom inn í kjólnum sínum og sá alla sem höfðu mætt til að vera viðstaddir. Sá svipur var algjörlega „priceless.“
Ester Eva og Spencer dönsuðu fyrsta dansinn við gamlan rokkslagara, Me and Bobby McGee. Ester Eva og Janis Joplin sem gerði lagið ódauðlegt eiga það sameiginlegt að hafa kvatt heiminn fyrir þrítugt. „Me and Bobby McGee var lagið okkar. Við elskuðum að keyra um og stilla lögin hennar í botn í bílnum. Textinn í laginu átti líka vel við, hann fjallar um söknuð; manneskju sem er að syrgja ástina sína.“
Ég var alltaf að velta fyrir mér hvaðan hún fékk eiginlega allan þennan styrk sem hún bjó yfir. Hún var svo sterk andlega, og þar til í endann var hún ótrúlega sterk líkamlega. Það sá ég til dæmis þegar hún lá í rúminu og þurfti að standa upp og greip þá um höndina á mér til að toga sig upp. Undir lokin var krabbameinið búið að breiða úr sér út um allan líkamann og taka of mikið frá henni, en mér fannst ótrúlegt hversu lengi hún náði að viðhalda þessum líkamlega styrk. Seinustu dagana fékk hún sterk verkjalyf og var hún mjög lyfjuð en einhvern veginn tókst henni samt að ná í gegn til okkar, og gat skilið það sem við vorum að segja og talað við okkur.“
Ester Eva náði að eiga þrjá daga á lífi sem gift kona.
„Við vissum að við vorum að upplifa seinustu dagana í lífi hennar og það gerði það að verkum að hvert einasta samtal sem við áttum var ótrúlega dýrmætt. Við áttum þó nokkuð mörg samtöl en þau runnu hálfpartinn öll saman í eitt. Við ræddum um heima og geima. Hún sagðist vera sátt með líf sitt og allt sem hún væri búin að gera. Ég held að undir endann hafi hún hugsað um það sem hana langaði að gera en hafi ekki gert. Hún vildi að við yrðum hamingjusöm og að við myndum eltast við draumana okkar. Hún sagði við okkur: „Ef þið viljið gera eitthvað, gerið það þá!“
„Mér finnst það huggandi að vita að hún skildi við sátt. Hún var drifin áfram af jákvæðni, alveg þar til hún dó, enda var það í hennar eðli að sjá alltaf það góða í öllu og öllum. Hún var ekki bitur eða reið á nokkurn hátt.“
Ester Eva dó í svefni.
„Hún vildi hafa fólkið sitt í kringum sig þegar hún færi. Ég hélt í höndina á henni og horfði á hana sofandi. Andardrátturinn byrjaði að breytast og að lokum stoppaði hann. Hún fékk að deyja friðsæl í svefni, eins og hún vildi.“
Spencer er einn eftir með drengina þeirra tvo. „Það er erfitt að vera einn, að vera orðinn ekill með tvo litla stráka. En svo hugsa ég til fyrstu mánaðanna í lífi yngri drengsins okkar, rétt áður en Ester Eva greindist með krabbamein, en þá þurfti ég að vera mikið í burtu vegna vinnu. Á þessum tíma var hún að eiga við erfið einkenni sjúkdómsins og á sama tíma gaf hún alla sína orku og allt sem hún átti í börnin okkar. Ég skil ekki hvernig hún fór að því.“
Hann ætlar að halda minningu Esterar á lífi ekki síst fyrir syni sína tvo.
„Ég ætla að sjá til þess að þeir muni eftir henni eins og hún var, yndisleg manneskja og dásamleg móðir. Ég á óteljandi sögur af mömmu þeirra sem ég ætla að segja þeim í framtíðinni.“
DV vill vekja athygli á styrktarreikningi drengjanna sem verður nýttur í skólastyrki fyrir þá þegar þeir verða eldri og þá er verið að safna fyrir útborgun í íbúð fyrir þá feðga, en Spencer býr með sonum þeirra Esterar hjá foreldrum sínum.
Söfnunarreikningurinn er í nafni systur Gunnars, föðurs Esterar en hún heitir Svanhildur Gunnarsdóttir Kennitala: 271152-5749 og Bankareikningur 0142-05-570531