AP-fréttastofan svipti hulunni af honum í ítarlegri umfjöllun árið 2013
Yfirvöld í Póllandi vilja að Michael Karkoc, 98 ára karlmaður sem búsettur er í Minnesota í Bandaríkjunum, verði framseldur svo hægt sé að rétta yfir honum.
Karkoc þessi var yfirmaður í SS-sveitum nasista á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar og er hann sagður hafa tekið þátt í fjöldamorðum í Úkraínu og Póllandi.
Það var árið 2013 sem AP-fréttastofan svipti hulunni af Karkoc sem alla tíð hefur neitað að vera umræddur hershöfðingi. Í umfjöllun AP á þeim tíma kom fram að maður að nafni Michael Karkoc hefði flust til Bandaríkjanna árið 1949 og sest að í Minnesota. Gögn sýndu að um væri að ræða sama mann.
Áður en Krakoc fékk landvistarleyfi í Bandaríkjunum sagði hann við bandarísk yfirvöld að hann hefði ekki tekið þátt í seinna stríði heldur unnið fyrir föður sinn á árunum sem stríðið stóð yfir. Tíu árum eftir að hann flutti til Bandaríkjanna fékk hann bandarískan ríkisborgararétt.
Saksóknarar í Póllandi vilja að Karkoc, sem meðal annarra er grunaður um að hafa brennt heilu þorpin í Póllandi til grunna, verði framseldur til Póllands. Þau gögn sem saksóknarar hefðu viðað að sér á undanförnum árum sýndu, svo ekki verði um villst, að um sama mann sé að ræða.
Saksóknarar við National Remembrance-stofnunina í Póllandi, sem meðal annars rannsakar glæpi sem framdir voru af nasistum og beindust gegn pólskum borgurum, hafa farið fram á það við dómstóla í Póllandi að handtökuskipun verði gefin út á hendur Karkoc. Verði orðið við þeirri beiðni geta pólsk yfirvöld farið fram á framsal. Og færi svo ætti Karkoc yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.