Sóun á mat mikið vandamál – Hefur áhirf á umhverfi og efnahag
„Ég hafði aðeins lesið um þennan dumpster lifnaðarhátt en aldrei prufað þetta sjálf þannig að þegar ég flutti inn með reynsluboltanum nýtti ég auðvitað tækifærið. Eftir að hafa prufað þetta var ég gjörsamlega í sjokki yfir því hversu miklu magni af fullkomnlega góðum mat er hent.“
Þetta segir Rakel Guðmundsdóttir, 22 ára námsmaður í Lundi í Svíþjóð á bloggsíðu sinni sem stundar gámadýfingar þar í landi en það er ein þýðing á hugtakinu dumpster diving, ruslarar hafa einnig verið notað. Rakel flutti nýlega til Svíþjóðar og býr með manni sem nýtir mat sem matvörubúðir telja að séu útrunnar.. Vill hún með þessu vekja athygli á matarsóun.
Sjá einnig: Borðar mat úr ruslagámum í Reykjavík
„Ég hafði aðeins lesið um þennan dumpster lifnaðarhátt en aldrei prufað þetta sjálf þannig að þegar ég flutti inn með reynsluboltanum nýtti ég auðvitað tækifærið. Eftir að hafa prufað þetta var ég gjörsamlega í sjokki yfir því hversu miklu magni af fullkomnlega góðum mat er hent. Við fundum heilan haug af gulum og flottum banönum, alls konar grænmeti og ávexti, mikið magn af brauði o.s.frv. Ég er allavega búin að smakka ávexti úr ruslinu sem ég vissi ekki einu sinni að væru til og ávexti sem líta betur út en í mörgum matvöruverslunum heima á Íslandi.“
Rakel segir að sóun á mat sé mikið vandamál sem hafi áhrif á umhverfi og efnahag. Á sama tíma og gríðarlegu magni sé hent af mat á Vesturlöndum eigi einn af hverjum níu jarðarbúum ekki nægan mat til að lifa heilbrigðu lífi og tólf prósent í heiminum séu vannærðir.
„Talið að um 30-35% af mengandi gróðurhúsalofttegundum komi frá matvælaiðnaði. Einnig fer mikið magn af vatni til spillis vegna matarsóunar. Sóun á matvælum er að sjálfsögðu líka bein sóun á fjármunum. Þegar matvælum er sóað hækkar verðlagið á matvörum til að bæta fyrir tapið sem sóunin veldur hvort sem er í framleiðslu, dreifingu eða smásölu.“
Rakel segir hópinn fara stækkandi og bendir á að í Frakklandi sé matvöruverslunum bannað að henda mat og megi að hluta rekja það til þeirra sem stunda að nýta mat úr ruslagámum. DV hefur fjallað um „ruslara“ hér á landi. Ræddi DV við Estelle Divorne sem er frá Sviss en hún leigði þá íbúð á Laugavegi. Sagði hún nokkuð stóran hóp stunda þetta á Íslandi en sumir skömmuðust sín fyrir að opinbera það að ná í mat með þessum hætti.
„Við göngum vel um og það passa allir upp á að skilja við gámana eins og þeir koma að þeim.“
Sjá einnig: Berjast gegn neysluhyggju en passa sig á majónesinu
Rakel segir hópinn fara stækkandi.
„Sumir gera þetta eflaust vegna þess að þeir fá frían og oftast góðan mat en þó held ég að megin ástæðan sé að “mótmæla” því að verslanir hendi mat,“ segir Rakel:
„Íslendingar eru örugglega engir eftirbátar annarra landa þegar kemur að matarsóun. Þetta er örugglega það umhverfismál sem er hvað auðveldast að leysa. Það snýst einfaldlega um að hætta að henda mat. Hversu flókið er það?“