

Dejan Lovren, varnarmaður Liverpool telur að liðið geti unnið Meistaradeildina í vor.
Liverpool heimsótti Porto í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum keppninnar í vikunni en leiknum lauk með öruggum 5-0 sigri gestanna.
Það voru þeir Sadio Mane, Mohamed Salah og Roberto Firmino sem skoruðu mörk Liverpool í leiknum en Mane skoraði þrennu.
„Af hverju ættum við ekki að geta unnið þessa keppni?“ sagði Lovren.
„Við spiluðum magnaðan fótbolta og við sýndum að við getum stjórnað leikjum frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu. Við þurfum að halda áfram að spila svona og reyna að byggja á þessari frammistöðu.“
„Ég tel að við höfum lært af mistökum okkar að undanförnu. Við höfum það mikil gæði í liðinu að við getum unnið hvaða lið sem er þegar að við erum á deginum okkar, svo einfalt er það.“
„Við erum með leikmenn fram á við sem allir óttast og þegar að þeir eru á deginum sínum þá er ekkert sem stoppar þá,“ sagði hann að lokum.