

Sir David Beckham, 50 ára, hlaut í gær riddaratign úr hendi Karls konungs á Windsor-höll. Við athöfnina mættu eiginkona hans Victoria, sem nú ber titilinn Lady Victoria Beckham ásamt foreldrum hans Ted og Söndru og þremur yngri börnum hjónanna, Romeo (23), Cruz (20) og Harper (14).
Mun Beckham nú bera nafnið Sir David Beckham en þann heiður fær hann fyrir störf sín í kringum fótboltann í gegnum árin.

En elsti sonurinn, Brooklyn Beckham, var hvorki viðstaddur né hefur skrifað eitt orð um tímamótin á samfélagsmiðlum. Það hefur vakið athygli, sérstaklega þar sem bræður hans Romeo og Cruz birtu báðir myndir frá athöfninni og lýstu stolti yfir föðurnum. Romeo skrifaði: „Enginn á þetta meira skilið en þú. Elska þig. Til hamingju, Sir dad.“
Brooklyn hefur hins vegar haldið algjörri þögn og það hefur vakið upp nýjar sögusagnir um spennu innan fjölskyldunnar. Samkvæmt enskum fjölmiðlum hefur hann sagt sig frá fjölskyldunni á undanförnu ári vegna vaxandi ágreinings.
Talið er að rót vandans nái aftur til brúðkaups Brooklyn og Nicölu Peltz árið 2022, þegar Nicola hafnaði brúðarkjól sem Victoria hafði hannað.

Frá þeim tíma hafa merki um fjarlægð haldið áfram, meðal annars þegar Brooklyn óskaði Victoria ekki til hamingju á mæðradaginn og lét ekki sjá sig á 50 ára afmælishátíðum Davids.
Þrátt fyrir allt hefur David lýst riddaratigninni sem „stoltasta augnabliki lífs síns“ en fjölskyldusagan virðist enn langt frá því að vera leyst.