Sandra Guadalupe-Castro, 57 ára gömul kona í Berks-sýslu í Pennsylvania í Bandaríkjunum, hefur verið handtekin og ákærð fyrir að hafa orðið tveggja ára barni að bana, snemma árs 1993.
Barnið sem um ræðir var sonur kærasta Söndru á þessum tíma. Hann var fluttur á sjúkrahús þann 8. janúar árið 1993 með mikla áverka, meðal annars á höfði. Lést barnið skömmu síðar en niðurstaða krufningar var afdráttarlaus um að því hefði verið ráðinn bani.
Fjölmargir sem tengdust barninu voru yfirheyrðir en þrátt fyrir umfangsmikla rannsókn lögreglu var enginn ákærður og málið fór í bunkann yfir óupplýst eða „köld“ mál. Drengurinn bjó heima hjá föður hans og kærustu hans, áðurnefndri Söndru Guadalupe-Castro.
Málið var tekið aftur fyrr á þessu ári, sem hluti af átaki við að endurvekja óleyst sakamál. Erfðafræðileg gögn voru yfirfarin að nýju, sem og vitnisburðir. Með þessari rannsóknarvinnu tókst að fá staðfest að áverkarnir sem drógu drenginn til dauða voru veittir nokkrum klukkustundum áður en hann dó. Kom einnig í ljós að barnið var eitt í umsjá Söndru þær klukkustundir sem liðu fram að dauða þess.
Sandra var yfirheyrð margsinnis árið 1993 og einnig núna við endurupptöku rannsóknarinnar. Hefur hún viðurkennt að hafa slegið drenginn á rassinn og fótleggi, sem og að hafa slegið hann í framan. En hún neitar að hafa barið hann í höfuðið.
Ljóst er að Sandra er sterklega grunuð um morðið. Var hún handtekin og ákærð í vikunni. Undirbúningsþinghald í málinu var haldið á föstudaginn. Dómari hefur neitað Söndru um lausn gegn tryggingu og mun hún sitja í gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur.
Sjá nánar hér.