Ana Paula Veloso Fernandes, 36 ára móðir og laganemi frá São Paulo, er grunuð um að hafa myrt að minnsta kosti fjóra einstaklinga á fimm mánaða tímabili, þar á meðal leigusala sinn. Er hún sögð hafa geymt rotnandi lík hans inni á heimili sínu í fimm daga.
Málið hefur vakið gífurlega athygli í Brasilíu, ekki síst vegna útlits Önu Paulu, sem þykir hugguleg í meira lagi og passar illa við þá ímynd sem fólk hefur almennt á raðmorðingjum.
Sennilega á orðtakið „flagð undir fögru skinni“ hvergi jafnvel við og í tilviki Önu Paulu. Í umfjöllun CNN kemur fram að lögregla lýsi henni sem „afar stjórnsamri, samviskulausri sem fái ánægju út úr því að drepa“.
Eitt fórnarlamb hennar var leigusali hennar, Marceol Hari Fonseca. Ana Paula er sögð hafa stungið hann til bana í janúar eftir rifrildi og lík hans síðan fundist á heimili hennar þar sem hún hafði reynt að fela það. Ólyktin kom hins vegar upp um hana að lokum.
Um svipað leyti á Ana Paula að hafa myrt þrjár aðrar manneskjur með því að byrla þeim rottueitur, annaðhvort í þeim tilgangi að ræna peningum af viðkomandi eða hreinlega hefna sín á þeim.