Gianni Infantino, forseti FIFA, segir að alþjóðaknattspyrnan þurfi að hafa opinn huga gagnvart því hvenær HM fari fram í framtíðinni og útilokar ekki að hætta megi við að halda mótið á hefðbundnum sumarmánuðum.
HM hefur í gegnum tíðina verið haldið að sumri til á norðurhveli jarðar, en árið 2022 var mótið fært yfir í nóvember og desember vegna óbærilegs hita í Katar. Nú stefnir í að svipuð staða gæti komið upp með HM 2034, sem fer fram í Sádi-Arabíu.
Í höfuðborginni Riyadh getur hiti farið yfir 40 gráður á heitustu dögum sumarsins, sem gæti reynst of mikið fyrir leikmenn og stuðningsmenn.
Á ráðstefnu Evrópskra knattspyrnufélaga (ECA) í Róm sagði Infantino að best væri að nálgast málið með sveigjanleika.
„Það er ekki bara spurning um eitt heimsmeistaramót,“ sagði Infantino.
„Jafnvel í sumum Evrópulöndum getur verið óbærilega heitt í júlí. Júní er líklega besti mánuðurinn fyrir fótbolta, en við nýtum hann ekki nægilega.“
„Við þurfum að hugsa hvernig við getum best nýtt dagatalið. Þetta eru vangaveltur í gangi og við skoðum allar leiðir.“
Samkvæmt skýrslu FIFA eru bestu leikskilyrðin í Sádi-Arabíu frá október til apríl, þegar meðalhiti er á bilinu 15–30 gráður.