David Luiz, 38 ára gamall fyrrum leikmaður Arsenal og Chelsea, stendur frammi fyrir alvarlegum ásökunum í heimalandinu Brasilíu vegna meintra hótanna í garð konu.
Francisca Karollainy Barbosa Cavalcante, sem er 26 ára gömul, segir hann hafa hótað sér í gegnum Instagram. Segir hún að hann hafi átt í framhjáhaldi með sér en að í kjölfar þess að hún hafnaði beiðni hans um að fara með sér í trekant hafi allt farið í háaloft.
Í kjölfarið á Luiz að hafa hótað henni. Á hann að hafa sagt að sonur hennar gæti fengið að borga fyrir hennar gjörðir og að hann gæti látið hana hverfa. Í kjölfar þess að Cavalcante steig fram sakar hún varnarmanninn, sem spilar í dag á Kýpur, um að hafa boðið sér því sem nemur rúmum tveimur milljónum króna fyrir að draga allt til baka.
Lagði hún skjáskot af meintum hótunum á borð lögreglu og fékk hún í gegn nálgunarbann á Luiz. Hann neitar allri sök en viðurkennir að hafa haft samband við Cavalcante á Instagram. Hann hafi þó aldrei hitt hana í persónu og hvað þá hótað henni.
Luiz er trúlofaður Bruna Loureiro og hafa þau verið lengi saman, auk þess að eiga tvö börn saman.