Gianluigi Donnarumma skrifaði undir hjá Manchester City í gær, á sjálfum gluggadeginum. Hann er sagður fá sitt gamla númer á ný hjá City.
Donnarumma var afar óvænt settur í frystinn hjá Paris Saint-Germain í sumar, í kjölfar þess að hafa átt stóran þátt í að tryggja liðinu Evrópumeistaratitil í vor.
Ítalski markvörðurinn var svo seldur til City á aðeins 26 milljónir punda í gær. Mirror segir að hann fari aftur í treyju númer 99 í Manchester.
Donnarumma sló í gegn afar ungur að árum með AC Milan og vakti hann þar athygli fyrir að vera í treyju númer 99.
Þegar PSG keypti hann árið 2021 gat hann ekki haldið númerinu, þar sem strangari reglur eru um treyjunúmer í efstu deild þar í landi.
Engar slíkar reglur eru á Englandi og getur hann því verið númer 99 þar. James Trafford, markvörður sem City keypti frá Burnley fyrr í sumar, ber númerið 1 á bakinu, líkt og Donnarumma gerði hjá PSG.