Samkvæmt heimildum frá RMC Sport hefur Paris Saint-Germain lækkað verðmiðann á ítalska markverðinum Gianluigi Donnarumma, sem hefur verið orðaður við Manchester City undanfarið.
Donnarumma, 26 ára, gæti orðið arftaki Ederson hjá Englandsmeisturunum, ef sá síðarnefndi yfirgefur félagið í sumar. City er sagt leita að nýjum markverði og virðist sá ítalski nú vera efstur á óskalista þeirra.
PSG hafði upphaflega sett verðmiðann á Donnarumma í kringum 43 milljónir punda, en samkvæmt RMC Sport hafa þeir nú lækkað hann niður í 26–30 milljónir punda. Ástæðan er sú að aðeins eitt ár er eftir af samningi leikmannsins við félagið í París.
Luis Enrique, stjóri PSG, tók ákvörðun að skipta út Donnarumma og hefur gefið Lucasi Chevalier tækifærið sem aðalmarkvörður liðsins.
Fabrizio Romano greinir jafnframt frá því að Manchester City hafi þegar náð samkomulagi um kaup og kjör við Donnarumma, allt virðist því þokast í rétta átt.
Koma Donnarumma til City er þó háð því að Ederson yfirgefi félagið. Sá brasilíski hefur verið fastamaður í liði Pep Guardiola í mörg ár en Galatasaray reynir nú að kaupa hann.