Gullforði margra Evrópuríkja er vel geymdur djúpt undir New York því að á Manhattan er bandaríski seðlabankinn til húsa. Í kjallara hans er svo mikið gull geymt að Jóakim Aðalönd myndi verða grænn af öfund ef hann sæi það.
Þjóðverjar og Ítalir hafa sérstakan áhuga á gullgeymslu seðlabankans því þar er megnið af gullforða ríkjanna geymdur.
Undir seðlabankanum er þýskt og ítalskt gull að verðmæti sem svarar til rúmlega 30.000 milljarða íslenskra króna geymt. Að minnsta kosti enn sem komið er.
Donald Trump er í stríði við seðlabankann því hann telur að hann haldi stýrivöxtunum of háum. Hann hefur í vaxandi mæli gagnrýnt Jerome Powell, seðlabankastjóra, og því fer pólitíski þrýstingurinn í gullgeymslum seðlabankans vaxandi.
Þessi pólitíska spenna hefur orðið til þess að samtök evrópskra skattgreiðenda (TAE) sendu bréf til fjármálaráðherra Þýskalands og Ítalíu og til seðlabanka og hvöttu þá til að íhuga hvort rétt sé að þeir séu svona háðir bandaríska seðlabankanum.
„Við höfum miklar áhyggjur af að Donald Trump muni skipta sér af hinum sjálfstæða bandaríska seðlabanka. Ráðlegging okkar er að flytja gullið heim svo að evrópskir seðlabankar hafi full yfirráð yfir því öllum stundum,“ sagði Michael Jager, formaður samtakanna, í samtali við Financial Times.
Ef einhver ríki taka gullið heim, þá verður það ekki í fyrsta sinn sem það gerist. Þjóðverjar tóku til dæmis hluta af gullforða sínum heim 2013 en þá fluttu þeir 674 tonn heim frá New York og París. Með því var helmingurinn af þýska gullforðanum kominn í vörslu þýska seðlabankans.