Egill Helgason fjölmiðlamaður segir það kjánalegt og skrýtið af Viðskiptaráði að bera saman opinber störf um miðja síðustu öld og nú og tala um gríðarlega fjölgun. Egill bendir á að það sé samfélagið sem hafi breyst gríðarlega á þessum tíma.
„Þetta er skrítin framsetning hjá Viðskiptaráði,“ segir Egill í færslu á samfélagsmiðlum og vitnar í frétt Vísis um skýrslu Viðskiptaráðs um áhrifa uppsagnarverndar opinberra starfsmanna. „Þarna segir að fjöldi opinberra starfsmanna hafi aukist gríðarlega „frá því ákvæði starfsmannalaganna um áminningar tók fyrst gildi“.“
Fjölgun opinberra starfsmanna skýrist einkum af aukningu mannafla í menntun og á heilbrigðissviði. Egill bendir hins vegar á að margt hafi breyst í samfélaginu sem skýrir þessa fjölgun.
„Jú, flestir landsmenn klára nú stúdentspróf og svo fara menn í háskóla ólíkt því sem var þegar ungt fólk kláraði bara „skylduna“ og menntaskólar voru teljandi á fingrum annarrar handar,“ segir hann. Heilsan hafi einnig breyst til mun. „Meðalaldur þjóðarinnar hefur hækkað mikið frá því á tíma áminningarskyldunnar (1954), jú, fólk lifir lengur, er hraustara, en vill um leið miklu meiri þjónustu lækna og hjúkrunarfólks – allt þar til það deyr í hárri elli.“
Þetta geri það að verkum að samanburður Viðskiptaráðs sé undarlegur.
„Já, það má vel vera að opinberir starfsmenn njóti sumir of mikillar vinnuverndar, en ansi er þetta nú kjánalega sett fram,“ segir hann.