Þann 10. júní næstkomandi verður tekin fyrir í Héraðsdómi Vesturlands, Borgarnesi, aðfararbeiðni Landbúnaðarháskóla Íslands á hendur 68 ára gamalli þýskri konu, en skólinn krefst þess að konan verði borin út úr húsnæði að Mið-Fossum. Er þar um að ræða kjallaraíbúð í eigu landbúnaðarháskólans sem konan hefur leigt.
Tilkynning um þetta er birt í Lögbirtingablaðinu í dag en þar er um að ræða boðun í þinghald. Kemur fram í tilkynningunni að þýska konan er með óþekkt lögheimili í Þýskalandi.
Stefán Bj. Gunnlaugsson lögmaður gætir hagsmuna Landbúnaðarháskóla Íslands í málinu og upplýsir hann í samtali við DV að leigusamningi við konuna hafi verið sagt upp fyrir um tveimur árum síðan. Leiga sem hún greiddi eftir það hafi verið endursend henni. Háskólinn hafi fyrir löngu viljað losa íbúðina enda búi konan ekki þar heldur í Þýskalandi. Hún neiti hins vegar að afhenda lyklana og því þurfti að stefna málinu fyrir dóm.
Lögskylda er að birta tilkynningu í Lögbirtingablaðinu ef ekki hefur tekist að birta þeim sem stefnt er í máli stefnu. Afar ólíklegt er að þýska konan sjái þessa boðun né að hún verði viðstödd þegar aðfarargerðin verðu framkvæmd, verði beiðnin um hana samþykkt fyrir dómi.