fbpx
Mánudagur 12.maí 2025
Fréttir

Ætla að byggja ofan á Sóltún með gamla fólkið inni – Skelfilegur hávaði mun valda heilabiluðu fólki miklum ótta

Ritstjórn DV
Mánudaginn 12. maí 2025 10:30

Sóltún

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Til stendur að byggja ofan á hjúkrunarheimilið Sóltún á meðan heimilisfólk er þar inni. Framkvæmdirnar eiga að standa yfir í tvö og hálft ár. Þeir sem leggjast gegn þessum áformum segja að skarkalinn og hávaðinn sem þessu mun fylgja verði óviðunandi og muni valda heimilisfólki miklum þjáningum og vekja sérstaklega skelfingu hjá heilabiluðu fólki sem skilur ekki hvað er að gerast.

Einar Stefánsson augnlæknir ræddi þessi mál á Bylgjunni í morgun. „Þetta byrjaði fyrir mig, Bryndís mín sest þarna að fyrir tveimur árum síðan. Býr þarna í Sóltúni við mjög gott atlæti, þetta er yndisleg stofnun og yndislegt og natið starfsfólk sem henni sinnir og ekkert nema hamingja yfir þeirri aðstöðu sem henni er boðin. Við erum mjög þakklát fyrir það. En svo hefur þessi blika verið á himninum, reyndar alveg í tvö ár, að það standi til að byggja bæði ofan á húsið og utan við húsið, bara endurreisa húsið algjörlega, stækka það um meira en helming, úr rúmlega 90 plássum upp í 150-60 pláss, heil hæð og svoleiðis. Þannig að þetta eru gríðarlega miklar framkvæmdir. Planið eins og það stendur í dag er að framkvæma þessar miklu byggingarframkvæmdir með gamla fólkið fast inni í  húsinu,“ segir Einar.

Einar, ásamt þremur öðrum læknum, hefur mótmælt áformunum og stefnir í málaferli vegna þeirra. Hann rifjar upp að áður hafi staðið til að byggja annað hjúkrunarheimili við hliðina. Sóltúni hafi verið úthlutað lóðum við hliðina, til hafi staðið að byggja annað hjúkrunarheimili að Sóltúni 4, flytja íbúana þangað og byggja á meðan ofan á Sóltún 2.

„Síðan gerist það í millitíðinni að þarna koma inn athafnamenn og fjármálamenn í stjórnina og þeir selja allar lóðirnar og fasteignirnar í burtu,“ segir Einar og bendir á að þar með hafi byggingarrétturinn á lóðinni við hliðina farið og þá hafi verið ákveðið að byggja ofan á húsið með íbúana inni í því.

Atlaga að mannréttindum

Einar segir að íbúarnir hafi tvíþættan rétt í málinu sem aðilar á borð við Sjúkratryggingar, Landlækni og heilbrigðisráðuneytið eigi að tryggja og fylgast með að sé virtur. Annars vegar ber Sjúkratryggingum skylda til að fullnægjandi gæði séu í þeirri þjónustu sem þær kaupa. Landlæknir og heilbrigðisráðuneytið hafa einnig þá skyldu að tryggja að heilbrigðisþjónusta sé af viðunandi gæðum.

Hins vegar eru það mannréttindi sem tryggð eru í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur undirgengist. Þar kemur m.a. við sögu friðhelgi heimilisins.

„Við erum þarna fáein gamalmenni sem eru að reyna að verja sína aðstandendur,“ segir Einar og bendir á að á hjúkrunarheimilum búi fólk sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Skelfilegt ástand muni skella á með þessum framkvæmdum: „Ég trúi fólki að það muni reyna sitt besta, að vera ekki með meiri skarkala en þörf krefur. En að endurbyggja heilt hús, bæta heilli hæð ofan á, lengja tvo gangana, armana, skipta um lyfturnar, þetta er gríðarleg framkvæmd. Þarna verður gríðarlegt skark og hávaði. Heilabilaða fólkið er ennþá viðkvæmara en þú og ég. Fyrst og fremst vegna þess að það skilur ekki hvað er að gerast, alveg eins og smábörn. Eins árs barn eða tveggja ára barn. Bara hrædd. Það veit ekki hvað er um að vera, það skilur ekki útskýringarnar.“

Ekki liggur fyrir hvenær framkvæmdirnar eiga að hefjast en þær hafa staðið til í nokkurn tíma. Fengist hefur lán til þeirra frá Norræna fjárfestingabankanum. Einar og félagar hans ætla að gera sitt besta til að koma í veg fyrir framkvæmdirnar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

„Fyrsta sinn í sögu Úkraínu“ segir leyniþjónustan

„Fyrsta sinn í sögu Úkraínu“ segir leyniþjónustan
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Asnar, kameldýr og hlaupahjól – Þetta eru nýjustu tæki rússneska hersins á vígvellinum

Asnar, kameldýr og hlaupahjól – Þetta eru nýjustu tæki rússneska hersins á vígvellinum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ráðherra og þingmaður VG hjólar í meirihlutann í borginni – „Fyrirsláttur, meinbægni og mismunun“

Fyrrum ráðherra og þingmaður VG hjólar í meirihlutann í borginni – „Fyrirsláttur, meinbægni og mismunun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir óánægju með auglýsingar SFS vera væl og þær hafi þvert á móti opnað augu almennings

Segir óánægju með auglýsingar SFS vera væl og þær hafi þvert á móti opnað augu almennings