

Jóhann Berg Guðmundsson er mættur aftur í landsliðshópinn, Arnar Gunnlaugsson hringdi í hann á dögunum og tilkynnti honum að hann yrði í hópnum núna.
Jóhann var ekki valinn í síðasta verkefni og vakti það nokkra undrun, Arnar fékk talsverða gagnrýni yfir sig fyrir að hafa ekki rætt við Jóhann vegna þess.
Meira:
Nýjasti landsliðshópur Arnars vekur athygli – Jóhann Berg og Hörður Björgvin snúa aftur
„Ég tjáði honum að hann yrði valinn, hann var mjög ánægður. Fyrri afrek voru ekki rædd, hann var bara stoltur og til í slaginn. Hungraður að hjálpa okkur,“ sagði Arnar um samtal þeirra.
Ísland mætir Aserbaídsjan í Baku fimmtudaginn 13. nóvember og Úkraínu í Varsjá í Póllandi sunnudaginn 16. nóvember.
Þetta eru síðustu tveir leikirnir í riðlakeppni undankeppninnar fyrir HM 2026. Frakkland er efst í riðlinum með tíu stig, Úkraína í öðru sæti með sjö stig og Ísland er í þriðja sæti riðilsins með fjögur stig. Aserbaídsjan er í neðsta sæti með eitt stig. Það lið sem endar í efsta sæti fer beint á HM á meðan liðið í öðru sæti fer í umspil.
Arnar útskýrði hvaða hlutverk hann sér Jóhann fyrir sér í. „Þegar hópurinn var birtur, það er meiri strúktúr í hópnum en áður. Við sjáum hann fyrir okkur á hægri kantinum og berjist um þá stöðu, hann kemur með reynslu sem við þurfum á að halda í þessum glugga. Þeir leikmenn sem hafa gengið í gegnum stóra leiki hjálpa í svona verkefni.“
Fyrir síðasta verkefni sagði Arnar að aðrir stæðu Jóhanni framar, hvað breyttist? „Við spiluðum tvo heimaleiki í síðasta gluggi. Við vorum með öðruvísi vægi í þeim glugga, við fáum á okkur fimm mörk gegn Úkraínu. Það er annað vægi í þessum glugga, það vita allir hvað þarf. Jói hentar þessu verkefni mjög vel.“
Hörður Björgvin Magnússon er einnig mættur aftur eftir að hafa komist á flug í Grikklandi á nýjan leik. „Hann er búinn að spila 4-5 leiki með félagsliði, við erum að fara til Póllands og sækja stig eða meira gegn Úkraínu. Þá fannst okkur vanta ef einhver meiðist í varnarlínunni, sem dæmi Daníel Léo hefur verið frábær. Erum þá með jafnvægi í hópnum.“
„Hópurinn er í góði jafnvægi, við erum sáttir með það.“