Sænska knattspyrnusambandið staðfesti í morgun að Englendingurinn Graham Potter hafi verið ráðinn nýr þjálfari sænska karlalandsliðsins í fótbolta.
Potter skrifar undir stuttan samning og hefur það markmið að koma liðinu á heimsmeistaramótið sumarið 2026.
„Ásamt leikmönnunum vil ég láta draum aðdáenda um að fara á HM rætast,“ sagði Potter í tilkynningu.
Samningur hans gildir út undankeppni HM og nær yfir leiki gegn Sviss og Slóveníu í nóvember. Ef Svíar komast í umspil í mars framlengist samningurinn sjálfkrafa og sömuleiðis ef liðið fer inn á HM.
Potter tekur við aðeins 24 dögum eftir að hann var rekinn frá West Ham.
Svíar hafa átt afar dapra byrjun í undankeppninni og aðeins fengið eitt stig í fyrstu fjórum leikjunum undir stjórn Jon Dahl Tomasson. Liðið situr á botni riðilsins á eftir Sviss, Kósóví og Slóveníu.