Það munaði litlu að ekkert yrði að félagaskiptum Yoane Wissa til Newcastle á lokadegi félagaskiptagluggans. Fjallað er um málið í enskum miðlum.
Wissa gekk í raðir Newcastle frá Brentford á 55 milljónir punda á lokadegi gluggans. Það munaði þó aðeins sekúndum á að skiptin myndu klikka vegna mistaka leikmannsins.
Sóknarmaðurinn gleymdi nefnilega að skrifa undir mikilvægan hluta samningsins og þurfti starfsmaður félagsins að hlaupa þvert yfir æfingasvæðið til að finna hann og láta hann skrifa undir gagnið. Newcastle náði svo að skila öllu inn þegar um 30 sekúndur voru til stefnu.
Wissa reyndi að komast til Newcastle í allt sumar. Hann keyrði frá London og norður í land á gluggadeginum og fékk að lokum skiptin sem hann vildi.