fbpx
Sunnudagur 13.júlí 2025
433Sport

Uppátæki Heimis rifjað upp – „Var einhver hér að panta pítsu?“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 18. nóvember 2024 21:30

Heimir Hallgrímsson Mynd: Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í bókinni Stafróf knattspyrnunnar, eftir Guðjón Inga Eiríksson, er víða komið við, innan lands og utan. Hér er örlítið brot um efnistökin, án þess að nefna of mikið: Hver týndist um borð í Herjólfi? Hvaða söngkona hitti ekki markið? Hvað er Rabona? Hver dó á vellinum en var lífgaður við? Hver var þekkt fyrir flikk-flakk-innköst?  Hver fann HM-styttuna? Hver setti snákinn í jakkavasann hjá samherja sínum? Hver ældi á völlinn? Já, og hvaða mikli markaskorari kúkaði á sig í landsleik?

Hér á eftir bregðum við okkur í einn kaflann og er hann merktur bókstafnum H. Þar er að sjálfsögðu að finna Heimi Hallgrímsson.  

Heimir Hallgrímsson — Pítsa pöntuð á varamannabekkinn

Fæddur 10. júní 1967.

Heimir Hallgrímsson er Vestmannaeyingur í húð og hár og lék sem miðvörður með ÍBV frá 1986 til 1992 og svo aftur á árunum 1994 til 1996. Í seinna skiptið þurfti hann reyndar oft að verma varamannabekkinn, enda var hann þá ekki eins léttur á sér og í það fyrra.

Atli Eðvaldsson þjálfaði ÍBV 1995 og 1996. Í einum leiknum í höfuðborginni, þegar Heimir var á bekknum, ásamt þremur félögum sínum í bumbugenginu, sem þeir kölluðu svo, tók hann upp farsíma og pantaði pítsu fyrir gengið! Ekki vegna þess að meðlimir þess væru svangir, heldur fannst þeim þetta einungis vera fyndin hugdetta. Þar af leiðandi var henni hrint í framkvæmd. Þetta var auðvitað gert án þess að þjálfarinn tæki eftir því, en tuttugu mínútum seinna birtist pítsasendill þarna hjá og kallaði: „Var einhver hér að panta pítsu?“

Atla var ekki skemmt og sendi pítsasendilinn umsvifalaust til baka og það með óopnaðan pítsakassann á milli handanna. Síðan var bumbugenginu skipað að hita upp og það eins langt frá bekknum og mögulegt væri. Þjálfarinn kærði sig ekkert um nærveru þeirra þessa stundina og vildi sem minnst af þeim vita.

Af Heimi er það svo að segja að hann hafði nýlokið tannlæknanámi þegar að þessu uppátæki kom, en hann átti síðar eftir að standa í sporum Atla sem þjálfari ÍBV og reyndar einnig íslenska karlalandsliðsins. Þar vann hann það þrekvirki að koma Íslandi á Evrópumótið 2016, ásamt Svíanum Lars Lagerbäck, og ennfremur Heimsmeistaramótið 2018, þá einn við stýrið.

Nokkru eftir að Heimir hætti með íslenska landsliðið tók hann við þjálfun liðsins Al-Arabi í Katar. Haustið 2022 gerðist hann svo öðru sinni landsliðsþjálfari, nú hjá Jamæka. Þar hætti hann um mánaðamótin júní/júlí 2024, en skömmu síðar beið hans þriðja starfið af þessum toga hjá Írlandi.

Ekki er hægt að skilja við þennan víðförula knattspyrnuþjálfara án þess að láta eftirfarandi sögu fljóta hér með: Sumarið 2016 áttust við í Vestmannaeyjum kvennalið ÍBV og Fylkis í A-deildinni. Heimir, landsliðsþjálfari Íslands á þessum tíma og jafnframt starfandi tannlæknir í heimabæ sínum þegar færi gafst, var á meðal áhorfenda og eins gott, því undir lok leiksins missti leikmaður Fylkis, Rut Kristjánsdóttir, framtönn eftir olnbogaskot. Um leið og ljóst var hvað hefði gerst beið Heimir ekki boðanna, dreif hana rakleitt í tannlæknastólinn og kom tönninni fyrir á sínum stað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Staðfestir að hann hafi sigrað krabbameinið

Staðfestir að hann hafi sigrað krabbameinið
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Náðu myndbandi af stórstjörnunni sem var blindfullur á tónleikum

Náðu myndbandi af stórstjörnunni sem var blindfullur á tónleikum
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Þrjú ensk stórlið sögð horfa til Parísar – Samningslaus næsta sumar

Þrjú ensk stórlið sögð horfa til Parísar – Samningslaus næsta sumar
433Sport
Í gær

,,Við erum ekki Inter Milan eða Real Madrid“

,,Við erum ekki Inter Milan eða Real Madrid“
433Sport
Í gær

Elías Már til Kína

Elías Már til Kína
433Sport
Í gær

Var ásakaður um leti og metnaðarleysi og fær stuðning úr óvæntri átt – ,,Ég hef ekkert illt að segja“

Var ásakaður um leti og metnaðarleysi og fær stuðning úr óvæntri átt – ,,Ég hef ekkert illt að segja“
433Sport
Í gær

Manchester United þarf að keppa við peningana í Sádi

Manchester United þarf að keppa við peningana í Sádi
433Sport
Í gær

Stuðningsmenn Arsenal skilja lítið í kaupstefnu félagsins – Eze enn á óskalistanum

Stuðningsmenn Arsenal skilja lítið í kaupstefnu félagsins – Eze enn á óskalistanum