Starfsfólk Manchester United verður gert að mæta á skrifstofur félagsins og starfa þaðan frá og með næstu mánaðarmótum. Hingað til hefur fólk haft þann möguleika að vinna heiman frá sér.
Það er Sir Jim Ratcliffe, nýr hlutihafi í United, sem tekur þessa ákvörðun en hann og fyrirtæki hans INEOS hafa tekið yfir knattspyrnuhlið rekstursins.
Allir starfsmenn eiga nú að mæta til vinnu á skrifstofunni þrátt fyrir einhver mótmæli. Enskir miðlar hafa fjallað um plássleysi á skrifstofunum og því henti betur að einhverjir vinni heima. Ratcliffe vill ekki hlusta á það.
Fyrr í vikunni var fjallað um eitrað andrúmsloft á meðal starfsmanna United vegna harðorðra tölvupósta sem bárust frá Ratcliffe eftir að hann tók út höfuðstöðvar félagsins.
„Mér var því miður brugðið á mörgum stöðum yfir hversu óhreint það var. Sérstaklega hjá upplýsingatæknideildinni, sem var til skammar. Ekki voru búningsklefar U18 og U21 árs liðanna mikið skárri,“ sagði meðal annars í póstum Ratcliffe.
Sagði hann að enginn myndi komast upp með þetta hjá INEOS, en þessi gagnrýni hefur ekki fallið vel í kramið á meðal starfsfólks United.
Á upplýsingatæknideildinni vinnur ungt fólk sem er á meðal þeirra lægst launuðu hjá United. Starf þeirra er fremur krefjandi og þessi gagnrýni Ratcliffe fór því öfugt ofan í starfsmennina þar. Líður þeim eins og þau hafi verið gerð að blórabögglum fyrir myn stærra vandamál innan félagsins.
Þá er ekki ánægja á meðal starfsmanna akademíunnar eftir ummælin um búningsklefa yngri liðanna. Andrúmsloftið er sagt eitrað vegna póstanna.
Þetta kemur allt saman í kjölfar þess að starfsmönnum var tilkynnt á dögunum að þau fengju ekki ókeypis miða á úrslitaleik enska bikarsins milli United og Manchester City þar sem var verið að skera niður kostnað. Skorið var niður á fleiri stöðum einnig.