fbpx
Föstudagur 21.júní 2024
Pressan

Ung hjón elska að lifa eins og fólk gerði fyrir 80 árum

Ritstjórn Pressunnar
Sunnudaginn 19. maí 2024 22:30

London árið 1940.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bresk hjón á þrítugsaldri hafa litað líf sitt eins mikið af því sem einkenndi fimmta áratug tuttugustu aldar og mögulegt er.

Það er BBC sem ræðir við hjónin. Eiginkonan heiti Liberty Avery og er 24 ára en eiginmaðurinn heitir Greg Kirby og er 29 ára. Þau búa í þorpinu Ditchingham í Norfolk héraði í suðausturhluta Englands.

Þau klæðast daglega fötum frá þessu uppáhaldstímabili sínu. Þau eiga bíl sem er árgerð 1942 og húsgögn frá þessum tíma prýða heimili þeirra. Brúðkaupið þeirra var einnig litað þessu gegnumgangandi þema í lífi þeirra en þau klæddust sínu fínasta pússi frá fimmta áratugnum en gestir létu sér nægja að bera höfuðföt frá þessum tíma.

Greg segir að þau hafi reynt að hafa brúðkaupið nokkurn veginn eins og það hefði verið hjá öfum þeirra og ömmum.

Þau halda þó alls ekki þessum áherslum eingöngu inni á heimili sínu og hika ekki við að klæðast fötum þessa tíma á almannafæri. Hjónin segja viðbrögð fólks almennt vera jákvæð en einstaka aðilar geri grín að þeim. Þau segja þetta þó vera fína leið til að kynnast nýju fólki því nokkuð sé um að fólk gefi sig á tal við þau að fyrra bragði þegar það sér þau klæðast eins og fólk gerði fyrir tæpum 80 árum. Liberty segir þetta hjálpa sér að takast á við feimnina sem hefur fylgt henni frá barnsaldri.

Liberty er klæðskeri og sérhæfir sig í að búa til kjóla í sama stíl og var ríkjandi á þessum uppáhalds áratug þeirra hjóna. Henni finnst líka gaman að baka og notar þá uppskriftir og tæki frá þessum árum.

Vita alveg að það er 21. öldin

Hjónin reyna að takmarka notkun á nútímatækni en Liberty er þó með Instagram-reikning sem heitir einfaldlega „Miss1940´s“ þar sem hún virðist meðal annars kynna störf sín sem klæðskeri.

Þau reyna að beina sjónum að leikjum og tómstundum þessa tíma á kvöldin og spila þá til að mynda borðspil og um helgar fara þau á böll þar sem dansaðir eru dansar fimmta áratugarins.

Hjónin leggja sig þó ekki fram við að lifa í þeirri sjálfsblekkingu að það sé ekki þriðji áratugur 21. aldar og taka sér stundum frí frá fimmta áratugnum.

Liberty segir þau til dæmis eiga það til að horfa á nýjar kvikmyndir þar sem þær frá fimmta áratugnum geti stundum verið þungar í vöfum.

Þau segja það vera mikla áskorun að passa upp á gömul fataefni en föt frá þessum tíma séu almennt þægileg og þau reyni sitt besta að gera við þau og gefa þeim þannig nýtt líf. Árangurinn sé oft sá að fötin líti út eins og þau gerðu þegar þau voru ný fyrir tæpum 80 árum.

Greg er rakari og hann og Liberty kynntust á hárgreiðslustofu sem hún starfaði á. Þau segja að sameiginleg ást þeirra á fimmta áratugnum hafi aðeins styrkt samband þeirra og á meðan þau hafi orðið nánari hafi aðdáunin á þessu uppáhalds áratug  þeirra bara haldið áfram að aukast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt