Gylfi Þór Sigurðsson stefnir að því að bæta markamet íslenska karlalandsliðsins nú þegar hann er snúinn aftur á völlinn og í landsliðsbúninginn.
Sem stendur deila þeir Kolbeinn Sigþórsson og Eiður Smári Guðjohnsen metinu með 26 mörk hvor. Gylfi er með 25 mörk.
„Að sjálfsögðu stefni ég á það og það hefur verið markmiðið í mörg ár. Kolli og Eiður eiga metið þannig að það er extra þýðingarmikið fyrir mig. Sérstaklega út af Eiði sem var mín fyrirmynd er ég var yngri. Það mun gera það sætara fyrir mig ef ég næ því,“ segir Gylfi í viðtali við Sýn.
Gylfi hefur rætt við Eið og segir að hann muni samgleðjast sér ef hann bætir metið.
„Ég spjallaði við Eið í gær og hann sagði að hann yrði ánægður. Hann vill alltaf að öðrum gangi vel og segist vonast til þess að ég nái þessu. Ég held að hann yrði ánægður fyrir mína hönd.“
Umræðan í heild á Vísi er hér.