Markvörðurinn Altay Bayindir hefur ekki enn spilað fyrir Manchester United frá komu sinni þangað í byrjun tímabilsins. Stjórinn Erik ten Hag hefur tjáð sig um stöðuna á kappanum.
Tyrkinn, sem er 25 ára gamall, var fenginn inn til að veita Andre Onana samkeppni. Margir héldu að hann fengi sitt fyrsta tækifæri í sigri United í enska deildabikarnum í síðustu viku en svo varð ekki.
„Við völdum að spila Onana í deildabikarnum því hann þarf að venjast enska boltanum. En við þurfum líka að þróa Altay áfram,“ segir Ten Hag.
Hollenski stjórinn er ánægður með fyrstu vikur Bayindir.
„Hann hefur heillað mikið á æfingum og er að bæta sig mikið. Við erum mjög ánægðir með hann.“