Framtíð Mason Greenwood er áfram í lausu lofti þó svo að Manchester United hafi ákveðið að losa sig við hann.
Greenwood hefur ekki æft eða spilað með United í átján mánuði eftir að unnusta hans sakaði hann um nauðgun og ofbeldi í nánu sambandi.
Málið var fellt niður fyrr á þessu ári og hefur Manchester United síðan skoðað málið hjá sér.
Nú er niðurstaða komin í málið og telur félagið heppilegst að Greenwood haldi knattspyrnuferli sínum áfram annars staðar en hjá United.
Samkvæmt enskum miðlum hafa tvö félög í ensku B-deildinni skoðað þann möguleika að fá Greenwood til liðs við sig en bæði eru sögð ólíkleg til að taka áhugann lengra.
United liggur á að losa sig við hann annað því félagaskiptaglugginn lokar um mánaðarmótin. Takist það ekki gæti félagið þurft að borga upp samning hann sem rennur ekki út fyrr en 2025.
Talið er að félög í Tyrklandi, Sádi-Arabíu og á Ítalíu hafi áhuga.