Forráðamenn enska úrvalsdeildarfélagsins Everton vilja klára ráðningu á nýjum knattspyrnustjóra félagsins fyrir föstudag. Frá þessu greinir Sky Sports í dag en Englendingurinn Frank Lampard var á dögunum rekinn sem knattspyrnustjóri eftir lélegt gengi Everton.
Everton er sem stendur í 19. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fimm stig, tveimur stigum frá öruggu sæti. Á sama tíma og leit stendur yfir að nýjum knattspyrnustjóra félagsins hafa borist fréttir í tengslum við eignarhald á félaginu.
Fyrst var talið að Farhad Moshiri vildi selja sinn hlut í Everton en nýjustu fréttir herma að hann leiti nú að mögulegum fjárfestum í félaginu til þess að reyna brúa bil sem er í kostnaðaráætlun á byggingu nýs leikvangs félagsins.
Nokkur nöfn hafa verið nefnd til sögunnar sem næsti knattspyrnustjóri Everton. Allt frá því fréttir bárust af því að Lampard hefði verið sagt upp störfum var það Argentínumaðurinn Marcelo Bielsa sem þótti líklegastur til að taka við stöðunni.
Það myndi hins vegar kosta Everton skildinginn að fá stjórann reynslumikla til liðs við sig og óvíst hvort það myndi nást í gegn.
Önnur nöfn sem hafa verið nefnd til sögunnar eru Sean Dyche, fyrrum knattspyrnustjóri Burnley. Dyche kom Burnley upp í deild þeirra bestu á sínum tíma og þótti gera afar góða hluti hjá félagi sem býr við takmarkaðar auðlindir og aðstæður. Óvissa er uppi meðal forráðamanna Everton hvort Dyche sé rétti maðurinn til þess að taka við Everton á þessum tímapunkti.
Undanfarinn sólarhring hefur nafn Ralph Hasenhuttl, fyrrum knattspyrnustjóra Southampton skotist upp á yfirborðið. Forráðamenn Everton vilja knattspyrnustjóra með reynslu af ensku úrvalsdeildinni og Hasenhuttl stenst þær kröfur.