Brotist var inn á heimili Angel Di Maria í París í gær þegar hann var að spila leik PSG og Nantes í frönsku úrvalsdeildinni. Vopnaðir menn ruddust inn á heimili fjölskyldunnar í París.
Di Maria var tekinn af velli eftir 62 mínútur í leiknum en Mauricio Pochettinho þjálfari liðsins labbaði með honum inn í klefa. Þar lét hann Di Maria vita af því að ráðist hafði verið á fjölskyldu hans. Skömmu áður hefði Leonardo yfirmaður knattspyrnumála hjá PSG fengið símtal og hann kom skilaboðum áleiðis til Pochettinho sem tók Di Maria af velli.
Di Maria yfirgaf heimavöll PSG grátandi og brunaði heim til sín þar sem fjölskyldu hans hafði verið ógnað. Di Maria er giftur Jorgelina og saman eiga þau tvö ung börn.
Mennirnir sem brutust inn á heimili Di Maria héldu fólkinu þar og ógnuðu því. Enginn úr fjölskyldu Di Maria er slasaður eftir innbrotið. Fleiri innbrot voru gerð á fjölskyldu leikmanna PSG í gær því brotist var inn á heimili foreldra Marquinhos sem leikur með PSG.
Brotist var inn á heimili Di Maria árið 2015 þegar hann lék með Manchester United, eftir það vildi hann og eiginkona hans yfirgefa borgina. Þau óttuðust um líf sitt.