Simon Jordan, einn af umsjónarmönnum TalkSport, segir að Roy Keane, fyrrum leikmaður Manchester United sé búinn að vera sem knattspyrnustjóri.
Keane hefur á sínum knattspyrnustjóraferli ekki notið jafn mikillar velgengni og sem leikmaður Manchester United. Hann hefur stýrt liðum á borð við Sunderland og Ipswich en hefur ekki verið í knattspyrnustjórastöðu síðan árið 2011.
Keane hefur verið orðaður við knattspyrnustjórastöðuna hjá Celtic en Simon Jordan vill að skoska félagið haldi sig fjarri honum.
„Ég tel að þetta yrði risastór áhætta, að ráða þann Roy Keane sem við þekkjum núna. Maður gæti hugsað sér það þegar hann var að fara inn í þjálfun fyrst en ég tel að sem knattspyrnustjóri núna sé hann búinn að vera,“ sagði Simon Jordan í útsendingu TalkSport.
Hann vill að Roy Keane haldi sig við starf sitt sem álitsgjafi hjá SkySports.
„Ég tel að Celtic eigi stórt verkefni fyrir höndum og þeir þurfa einstaklinga sem geta sinnt þessu starfi vel til þess að brúa bilið sem hefur myndað við Rangers,“ sagði Simon Jordan, umsjónarmaður Talksport.