Ramon Calliste er ekki þekktasta nafnið í knattspyrnuheiminum. Hann var mikið efni á sínum tíma og var kallaður „hinn næsti Ryan Giggs“ er hann var á mála hjá Manchester United.
Hann náði hins vegar aldrei að standa undir þeim væntingum, spilaði aldrei leik fyrir aðallið Manchester United en æfði með aðalliðinu í nokkur skipti. Hann meiddist illa í leik með Scunthorpe seinna á ferlinum og lagði skóna á hilluna.
Calliste hefur þó notið mikillar velgengni á öðru sviði en knattspyrnunni. Árið 2013 sneri hans sér að úrum og stofnaði sitt eigið fyrirtæki sem ber nafnið Global Watches. Þar selur hann og kaupir úr frá framleiðendum á borð við Rolex, Piguet og Hublot.
Fyrirtæki Ramon hefur notið mikillar velgengni, hann þénar rúmlega 5 milljónir punda á ári með því að selja úr. Það jafngildir rúmlega 880 milljónum króna.
„Þegar að ég áttaði mig á því að knattspyrnan myndi ekki gefa mér það líf sem ég þráði, var kominn tími til að snúa sér að öðru. Ég byrjaði að braska með úr í gegnum tengiliði sem ég kynntist í knattspyrnuheiminum.“
„Þegar að ég sá að þetta gæti orðið gott fyrirtæki stofnaði ég Global Watches árið 2013 og það veltir núna milljónum punda,“ sagði Ramon Calliste.