Ryan Giggs mun að mestu sjá um að ákvarðanir er tengjast landsliði Wales í næsta verkefni en fær þrátt fyrir það ekki að mæta til starfa.
Giggs stýrði Wales ekki í nóvember en skömmu áður var hann handtekinn og grunaður um að hafa lamið unnustu sína. Ef ekki verður gefin út ákæra er líklegast að Giggs snúi aftur til starfa.
Lögreglan í Manchester hefur lokið rannsókn á meintri líkamsárás Ryan Giggs á fyrrum unnustu sína. Ákæruvaldið fer nú yfir málið og ákveður hvort gefin verði út ákæra á hendur Giggs.
Lögregla var kölluð til á heimili Giggs og Kate Greville í úthverfi Manchester í nóvember og var Giggs handtekinn á heimili sínu. Greville sakar hann um gróft líkamlegt ofbeldi.
„Hann er með í ráðum,“ sagði Robert Page aðstoðarþjálfari Giggs sem stýrir liðinu í fjarveru hans.
„Ég stýri þessu en eins og í nóvember þá hefur hann mikið um hlutina að segja.“