John Barnes, fyrrum leikmaður Liverpool, hefur tröllatrú á Jurgen Klopp, knattspyrnustjóra liðsins, þrátt fyrir magurt gengi á tímabilinu.
Liverpool vann ensku úrvalsdeildina á síðasta tímabili en eru langt frá því að verja titilinn á þessu tímabili. Liðið situr í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 43 stig eftir 28 leiki.
Klopp er með samning við Liverpool til ársins 2024 og Barnes telur að Klopp geti unnið deildina á ný með Liverpool.
„Ef Klopp heldur áfram hjá Liverpool til lengri tíma, þá er ég handviss um að hann vinnur ensku úrvalsdeildina á ný með Liverpool,“ sagði John Barnes í viðtali sem birtist á Goal.com.
Núverandi tímabil hefur verið meiðslum hrjáð hjá Liverpool en aðal miðvarðarpar liðsins hefur verið frá vegna meiðsla bróðurhluta tímabilsins. Barnes telur að Liverpool geti barist um titilinn á næsta tímabili.
„Samningur hans rennur út árið 2024 svo við munum hafa þrjú ár í viðbót af Klopp í ensku úrvalsdeildinni, þrjú ár þar sem hann á möguleika á að gera Liverpool að Englandsmeisturum á ný,“ sagði John Barnes, fyrrverandi leikmaður Liverpool.